Ríkisstjórnin er réttilega skömmuð, bæði hér í Dagblaðinu og annars staðar, fyrir flest það, sem hún gerir eða gerir ekki. Þess vegna er það ánægjuleg tilbreyting að geta bent á markverðan árangur, sem hún hefur náð á einu sviði.
Vöruskiptum Íslands og útlanda hefur á þessu ári verið háttað þannig, að þjóðin hefur ekki lifað um efni fram. Við höfum í átta mánuði flutt út vörur fyrir nokkurn veginn sama verð og við höfum flutt inn vörur fyrir.
Út fluttum við vörur fyrir 165.664 milljónir króna og inn fyrir 165.667 milljónir króna. Mismunurinn er nánast enginn, tæpar þrjár milljónir króna. Takið eftir, að þetta eru milljónir, en ekki milljarðar.
Á sömu mánuðum í fyrra, þegar hægri stjórn var við völd, var vöruskiptajöfnuðurinn óhagstæður um 17.683 milljónir króna. Þá lifði þjóðin um efni fram, eins og hún hefur raunar yfirleitt gert síðustu áratugina.
Ríkisstjórnin ræður auðvitað ekki ein þessum bata. Farmannaverkfallið í vor hafði meiri áhrif á innflutning en útflutning. Þau áhrif jöfnuðust ekki upp að fullu að verkfallinu loknu.
Ríkisstjórnin hefur eflt svartsýni manna í atvinnuvegunum og dregið úr framkvæmdavilja og -getu þeirra. Þetta andrúmsloft hefur dregið úr innflutningi véla, tækja og byggingarefna til eflingar atvinnuveganna.
Í þessu koma fram hinar tvær ólíku hliðar sama peningsins. Það er hagstætt að lifa ekki um efni fram, um leið og það er óhagstætt að efla ekki atvinnuvegina af kappi. En það er ekki bæði hægt að halda og sleppa.
Sami vandi kemur raunar miklu skýrar fram í lífskjörum þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur náð árangrinum í vöruskiptajöfnuði fyrst og fremst með því að rýra lífskjör þjóðarinnar, draga úr kaupgetu hennar á erlendum vörum.
Þegar kaupmátturinn varð mestur í fyrra um mitt ár, nam hann 119 stigum. Nú er hann kominn niður í 109 stig. Þessi minnkun nemur rúmum átta prósentum. Og það er sannarlega veruleg og tilfinnanleg minnkun á skömmum tíma.
Búast má við, að kaupmátturinn muni áfram lækka fram að 1. desember í ár. Þá verði hann kominn niður í 105 stig, sem jafngildir tæplega tólf prósent rýrnun frá hámarkinu í fyrra.
Það þrengist því í búi hjá smáfuglunum, þegar líða tekur undir aðventu. Jólainnflutningurinn ætti því ekki að spilla vöruskiptajöfnuði þá fjóra mánuði, sem eftir lifa ársins.
Heldur mun þó birta upp hjá almenningi 1. desember, því að þá fá menn bættan verulegan hluta af kjaraskerðingu nýjustu hækkunar á verði landbúnaðarafurða, svo og á söluskatti og vörugjaldi. En lífskjörin verða þá samt síðri en þau eru nú.
Ríkisstjórnin stendur því andspænis tveimur gerólíkum hliðum árangursins í vöruskiptajöfnuðinum. Hún hefur nefnilega náð þessum árangri með því að rýra kjör fólks. En hvernig hefði hún átt að fara að á annan hátt? Spyr sá, sem ekki veit.
Vinnuveitendasambandið hefur dyggilega stutt viðleitni ríkisstjórnarinnar á þessum sviðum með því að standa af fullri hörku gegn viðleitni einstakra hópa til að sprengja þröngan ramma Alþýðusambandsins.
Mikilvægastur er þó stuðningur Alþýðusambandsins við ríkisstjórnina. Kjararýrnunin hefði aldrei orðið svona stórfelld, ef Alþýðusambandið hefði ekki verið vinsamlegt ríkisstjórninni og ekki lagt sig í líma við að þola kjararýrnunina.
Það kostar fórnir að lifa ekki um efni fram.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið