Eðlilegt er, að eftir stríðið borgi Bandaríkin, Bretland og Ástralía tjónið, sem hernaður þeirra veldur á innviðum Íraks. Ekki er hægt að ætlast til, að andstöðuríki stríðsins á borð við Frakkland og Þýzkaland borgi fyrir eyðileggingu, sem þau hafa eindregið varað við. Hins vegar verður Íslendingum væntanlega sendur reikningur fyrir endurreisnina, af því að landsfeður okkar studdu stríðið opinberlega og eru því óbeinir aðilar að eyðileggingunni. Það kostar sitt að þykjast vera stórir strákar í stríðsleik, þótt bak við skrifborð sé.
