Verum ekki vinir bófa

Punktar

Nú er ekki sá tími, að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir. Rándýrin vaða um og láta greipar sópa. Refurinn étur ekki gras, þótt klifurmúsin mæli með því. Dýrin í skóginum þurfa þvert á móti að verjast rándýrunum. Stefna Bjartrar framtíðar er út í hött, því orðið „sátt“ þýðir að rándýrin fái að kýla málalok niður í kok á þér. Nú er fremur tími til að berjast. Ef þjóðin grípur ekki til varna, mun hún standa slypp og snauð eftir þrjú ár enn af rugli. Landið allt og miðin öll verða þá eign bófa, sem líka eiga pólitíkina, embættin, dómsvaldið og fjölmiðlana. Verum ekki vinir bófa, okkur verður skammtað það, sem úti frýs.