Versnar fyrst, batnar svo

Greinar

Fólk á erfitt með að átta sig á, hve gífurleg bylting hefur átt sér stað í fjármálum heimsins síðan Arabaríkin höfðu frumkvæði að verðhækkun á olíu og benzíni. Afleiðing þessara umskipta er sú, að sum Vesturlönd ramba á barmi gjaldþrots og að sum Arabalönd eru komin upp fyrir Vesturlönd í þjóðartekjum á íbúa.

Greiðsluhallinn á olíuviðskiptum umheimsins við Arabaríkin nemur um 70-80 milljónum dollara á þessi ári. Þetta er stjarnfræðileg tala, sem erfitt er að gera sér grein fyrir. En hún felur það í sér, að auðmagnið í heiminum er hröðum skrefum að færast í hendur Arabaríkjanna.

Þetta er Vesturlandabúum þungur biti. Ef greiðsluhallinn verður áfram svona hrikalegur, verða Vesturlönd hreinlega gjaldþrota. Ítalía er þegar komin fram á yztu nöf og Bretland og fleiri lönd fylgja fast á eftir.

Lífskjör hafa þegar versnað nokkuð í flestum ríkjum Vesturlanda, þar á meðal í Bandaríkjunum. Og strangari ráðstafanir stjórnvalda til hindrunar á alvarlegri kreppu munu leiða til enn frekari rýrnunar.á lífskjörum Vesturlandabúa. Slíkar ráðstafanir fara senn að komast í eindaga, því að víða eru stjórnvöld búin að afla sér allra þeirra lána, sem unnt er að fá.

Samfara þessu fer óhjákvæmilega samdráttur í framleiðslu, bæði vegna minnkandi eftirspurnar og vegna stöðnunar í heimsverzluninni. Brezka tímaritið Economist segir 10% samdrátt heimsframleiðslunnar koma alvarlega til greina. Þar með væri alþjóðakreppa orðin að áþreifanlegri staðreynd.

Íbúar Vesturlanda sjá því fram á rýrnandi lífskjör, atvinnuleysi og félagslega upplausn. Þessi vandamál eru samt barnaleikur í samanburði við þau, sem verðhækkun olíunnar hefur skapað þróunarlöndum heims. Þau hafa ekki safnað neinum auði til að nota meðan stormurinn ríður yfir. Þau horfast í augu við þann möguleika, að næstu ár verði mestu hungurár veraldarsögunnar.

Hagkerfi þróunarlandanna hafa hingað til rétt marið að hafa við fólksfjölguninni. Olíuhækkunin veldur því, að þessi lönd hafa ekki lengur efni á að reka vélar eða kaupa þær. Þau hafa ekki lengur efni á að kaupa verksmiðjuafurðir eins og áburð og fóðurbæti. Landbúnaður þeirra færist því á frumstæðara og afkastaminna stig. Síðan fylgir almennt hungur.í kjölfarið.

Vesturlönd og einkum Bandaríkin hafa oftast komið til hjálpar, þegar slíkur vandi hefur steðjað að. En nú er vandinn meiri en áður og geta Vesturlanda minni en áður. Stjórnvöld Vesturlanda hafa vísað þróunarlöndunum á Arabaríkin, sem hafa árlega yfir að ráða 70-80 billjónum dollara umfram það, sem þau geta notað sjálf.

Þetta erfiða tímabil hungurs í þróunarlöndunum og kreppu á Vesturlöndum getur staðið nokkur ár, meðan Vesturlönd keppast við að verða sjálfum sér nóg í orkumálum, meðal annars með olíu úr Norðursjó. Þá má búast við, að olíuverðið fari að lækka aftur. En ástandið á eftir að versna að mun áður en það byrjar að batna.

Jónas Kristjánsson

Vísir