Mikilvægt skref í átt til aukinna borgararéttinda hefur verið stigið hér á landi. Á alþingi hefur verið lagt fram stjórnarfrumvarp um umboðsmann alþingis að norrænni fyrirmynd. Er frumvarpið samið í framhaldi af samþykkt tillögu um þetta efni frá Pétri Sigurðssyni alþingismanni.
Umboðsmaðurinn á að taka við kvörtunum fólks á hendur opinberum stjórnvöldum og embættismönnum og hafa starfslið til að rannsaka þessar kvartanir. Ef þær hafa við rök að styðjast, geti hann látið höfða mál gegn viðkomandi valdhöfum eða náð fram leiðréttingum með öðrum hætti.
Um leið og umboðsmaðurinn er almenningi til halds og trausts gagnvart ríkisbákninu, stuðlar hann einnig að bættri stjórnsýslu. Eftir því sem stjórnkerfið verður flóknara, eykst þörfin á slíkum umboðsmanni. Einstakir þingmenn hafa ekki lengur innsýn í ríkisbáknið og geta ekki veitt því nægilegt aðhald. Þar við bætist, að frumkvæðið í opinberum málum er stöðugt að færast meira og meira í hendur embættismanna, sem einir hafa þá sérþekkingu, er hið flókna ríkiskerfi krefst
Með því að snúa sér til umboðsmanns alþingis getur almenningur sparað sér dýran og tímafrekan málarekstur fyrir dómstólum. Óhætt er að fullyrða, að þetta sé eitt mesta nauðsynjamál sem alþingi hefur til meðferðar.
Jónas Kristjánsson
Vísir