Verðmiði á blaði

Greinar

Verkamannaflokkurinn norski, burðarás stjórnmála þar í landi, hefur norskra hagsmuna að gæta hér á landi. Hæst ber þar herstöðina í Keflavík, sem talin er treysta hernaðarlegt öryggi Norðmanna. Og norski Verkamannaflokkurinn hefur einmitt jafnan verið mjög hlynntur samstarfi þjóða Atlantshafsbandalagsins.

Áhugi norskra jafnaðarmanna á velferð og sjónarmiðum trúbræðranna á Íslandi hefur komið fram í ýmsum myndum. Um þetta leyti er starfsmaður Alþýðuflokksins beinlínis á launum hjá sjóðum norrænna jafnaðarmanna, að undirlagi Norðmanna. Og hliðstæðir sjóðir hafa löngum greitt erlendan ferðakostnað forustumanna Alþýðuflokksins.

Vel er unnt að hugsa sér verri erlenda þrýstihópa en norska jafnaðarmenn. Eflaust reyna þeir að fara vel og hóflega með tökin á Alþýðuflokknum. Hins vegar hlýtur að vera ógeðfellt, að erlendir aðilar skuli með þessum hætti vera útgerðaraðilar að íslenzkum stjórnmálaflokki.

Nú er ætlunin að margfalda þessa norsku aðstoð með sérstökum stuðningi við rekstur Alþýðublaðsins og Vísis. Helzt er talað um pappírsgjafir, er gætu numið um 40 milljónum íslenskra króna á ári, og einnig bein fjárframlög úr Samstöðusjóði norrænna jafnaðarmanna.

Undanfarin tvö ár hefur Alþýðublaðið verið á framfæri Vísis. Sú skipan mála komst á, af því að forráðamenn Vísis töldu sig þurfa á að halda atkvæði Alþýðublaðsins í prentsmiðjunni Blaðaprenti til að ná 50% hlutdeild þar. Sú aðstaða skipti nokkru í prentréttardeilum Vísis og Dagblaðsins á þeim tíma.

Nú eru þær deilur langt að baki. Er því svo komið, að forráðamenn Vísis telja sig hafa vafasaman ávinning af að greiða um 15 milljónir króna á ári í tap á Alþýðublaðinu. Um áramótin rennur út samningur blaðanna tveggja og vilja forráðamenn Vísis ekki framlengja hann á óbreyttum kjörum.

Þar við bætist óánægja margra Alþýðuflokksmanna með, að blað þeirra skuli vera á framfæri annars blaðs, sem svo eindregið styður Sjálfstæðisflokkinn, að telja má það hreint flokksblað. Telja þeir þessa framfærslu binda mjög hendur Alþýðuflokksins í hugsanlegum viðræðum flokka um stjórnarsamstarf eftir næstu kosningar.

Niðurstaðan hefur orðið sú, að teknar hafa verið upp viðræður við norska jafnaðarmenn um þann stuðning, sem lýst hefur verið hér að framan. Verðmiðinn hefur ekki enn verið fylltur út, en talið líklegt, að hann muni hljóða upp á 40 milljónir króna á ári.

Ástandið er vissulega orðið umhugsunarvert. Stjórnmálaflokkur. sem ráðið getur úrslitum um myndun ríkisstjórnar á Íslandi, hefur hvorki bolmagn til að borga starfsmanni sínum né flokksblaði og verður að leita á náðir vinsamlegra útlendinga.

Alvarlegust er þessi þróun Alþýðuflokknum sjálfum. Flokkur, sem vill safna öllum íslenzkum jafnaðarmönnum undir væng sinn, verður að búa yfir félagslegu bolmagni, ekki sízt fjölmennu liði hugsjónamanna, sem fúsir eru að leggja fé af mörkum. Slíkt aðdráttarafl skortir í tvöfaldri hjáleigu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið