Sautján prósent gengislækkunin er fyrsta skrefið í þeim björgunaraðgerðum í efnahagsmálum, sem munu einkenna þjóðmálin næstu vikur. Jafnframt er gengislækkunin lykillinn að öðrum björgunaraðgerðum. Hún er tilraun til að ná jafnvægi í innlendu og erlendu verðlagi.
Gengislækkunin er fyrst og fremst miðuð við, að útflutningsatvinnuvegirnir geti borið sig í náinni framtíð. Það hefur jafnan verið skilgreining manna á “réttu gengi”, að það gerði þessum atvinnuvegum kleift að starfa með eðlilegum hætti. Að fróðustu manna yfirsýn eru 17% nægileg og má það heita vel sloppið.
Í þeim útreikningum gerir Seðlabaukinn ráð fyrir, að gengislækkunin komist að verulegu leyti til skila og verði ekki eyðilögð með tilsvarandi hækkun á innlendum rekstrarkostnaði.
“Ekki verði um að ræða áframhaldandi víxlverkanir kaupgjalds og verðlags, heldur aðeins tiltölulega hóflega aukningu rekstrarkostnaðar vegna launauppbóta til láglaunafólks og samsvarandi leiðréttingar á fiskverði”, eins og segir í fréttatilkynningu bankans.
Gengislækkunin ein er ekki allra meina bót, enda segir í tilkynningu bankans: “Þótt lækkun gengis krónunnar geti um sinn haldið í horfinu um afkomu atvinnuveganna, verður ekki um varanlegan bata að ræða, nema takast megi að hægja verulega á eftirspurnaraukningunni með viðeigandi aðgerðum í launa-.og verðlagsmálum annars vegar, en í fjármálum og peningamálum hins vegar. Er sérstaklega mikilvægt, að jafnaður verði sívaxandi halli á mörgum sviðum opinbers búskapar og dregið úr notkun erlends lánsfjár til innlendra framkvæmda.”
Nýja ríkisstjórnin hefur einmitt í hyggju að halda útgjöldum fjárlaga niðri og treysta meira á innlendan sparnað en erlendar lántökur. Allt er þetta gagnstætt þeirri stefnu, sem rekin hefur verið á undanförnum þremur árum og ætti að vera til mikilla bóta. Bæði í þessum efnum og í hugmyndum um að halda óbreyttri kaupgreiðsluvísitölu um nokkurt skeið fara saman sjónarmið ríkisstjórnar, Seðlabanka og efnahagssérfræðinga vinstri stjórnarinnar. Þessi sjónarmið voru viðurkennd af foringjum vinstri flokkanna, þegar þeir voru að reyna að mynda stjórn, og eru í sama gildi núna. .
Í greinargerð Seðlabankans fyrir gengislækkuninni er lýst því ástandi sem gerir lækkunina nauðsynlega: “Hefur afkoma útflutningsatvinnuveganna farið mjög versnandi undanfarna mánuði, bæði vegna kostnaðarhækkana hér innanlands og óhagstæðrar þróunar á ýmsum útflutningsmörkuðum. Er fyrirsjáanlegt, að veigamiklar greinar útflutningsframleiðslunnar verða að draga saman starfsemi sína eða stöðva hana að mestu leyti, áður en langt um líður, ef ekkert er að gert. Er því yfirvofandi alvarlegur samdráttur í atvinnu samfara minnkandi gjaldeyristekjum.”
Þótt gengislækkun sé örþrifaráð, sem rýrir lífskjör þjóðarinnar um sinn, er hún þó skárri kostur í núverandi ástandi en hin dökka mynd, sem Seðlabankinn dregur upp af atvinnuþróuninni, ef ekki hefði verið gripið til gengislækkunar.
Jónas Kristjánsson
Vísir