Ekki kemur til mála, að Landsvirkjun fái að hækka rafmagnið til að auka hagnað sinn eins og ástandið er í þjóðfélaginu um þessar mundir. Samt eru rök Landsvirkjunar fyrir hækkunarkröfunni alveg rétt. Meiri hagnaður fyrirtækisins mundi leiða til öruggari uppbyggingar orkuvera og ódýrara rafmagns í framtíðinni.
Fróðlegt er að skoða það, sem liggur að baki kröfunnar um hækkað verð á rafmagni. Alþjóðabankinn krefst hagnaðar hjá lánþegum sínum sem grundvallar fyrir lánstrausti. Hann vill, að viðskiptavinir sínir hagnist vel, geti byggt upp eigið fjármagn og verði síður háðir lánastofnunum. Honum finnst Landsvirkjun ekki hagnast nógu vel, ekki nema um 587 milljónir króna í ár!
Verðbólgan veldur því, að afskriftir nægja ekki til eðlilegrar endurnýjunar fyrirtækja, auk þess sem þau þurfa fé til að stækka. Þess vegna þurfa fyrirtæki að hagnast. Helmingurinn af hagnaðinum rennur beint til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins og nokkur hluti er arður, sem er eins konar vextir til hluthafa. Afgangurinn situr eftir í fyrirtækinu og gerir því kleift að vaxa fyrir eigin tilstyrk.
Þetta eru erlendar venjur, sem ekki hafa náð fótfestu hér á landi. Við búum við sérkennilega fornlegt ástand, þar sem flest fyrirtæki eru algerlega upp á lánastofnanir komin. Þingmenn og aðrir umboðsmenn stjórnmálaflokka ráða atvinnulífinu með aðstöðu sinni í bönkum og sjóðum landsins.
Æskilegt væri, að Íslendingar færu fyrr en síðar að líta hagnað réttu auga. Erlendis vita menn, að hagnaður er merki þess, að fyrirtækið sé traust og muni leggja mikið af mörkum til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins. Hér þykir hagnaður stappa nærri þjófnaði.
Af hverju má Landsvirkjun þá ekki hækka rafmagnið? Og af hverju streitist verðlagsstjóri gegn hækkunarkröfum ýmissa annarra aðila? Það er af því að ástandið er óeðlilegt og aðgerðir hans þurfa að hæfa óeðlilegu ástandi. Það er verið að reyna að halda verðbólgunni niðri og kaupmættinum uppi við einkar erfið skilyrði.
Erfiðleikarnir stafa af því, að ríkið hefur gerzt of fjölþreifið í þjóðfélaginu. Það hefur á fáum árum aukið verulega hlutdeild sína í þjóðarbúinu á kostnað atvinnulífs og almennings. Hingað til hefur almenningur orðið að bera mestan hluta bölsins, en í kjarasamningum sumarsins var reynt að rétta hlut hans. Það tekst ekki nema reynt sé að halda hlut fyrirtækjanna í skefjum.
Hagsmunir heimilanna á líðandi stund verða að sitja í fyrirrúmi, unz hlutdeild ríkisins af þjóðarbúinu er komin niður í eðlilegt horf. Þá geta fyrirtækin farið að hagnast. Þá má Landsvirkjun ná alþjóðlegum staðli í arðsemi, en ekki núna.
Landsvirkjun hugðist ekki aðeins ná fullum hagnaði á þessu ári, heldur ná á sama árinu upp því, sem á skorti, að fyrirtækið næði fullum hagnaði síðustu þrjú árin. Undir eðlilegum kringumstæðum væri fyrirtækið vel að þessu komið. En í núverandi ástandi finnst mönnum Landsvirkjun ætla sér um of. Hún er þegar betur sett en flest önnur fyrirtæki í landinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið