Vaxandi bjartsýni

Greinar

Íslendingar eru bjartsýnni um þessi áramót en þeir hafa verið tvenn síðustu áramót. Fólk telur, að uppgangur verði í atvinnulífinu á næsta ári og að hann muni endurspeglast í lífskjörum almennings. Bjartsýnin er studd ýmsum jákvæðum staðreyndum í þjóðlífinu.

Samningurinn um stækkun álversins í Straumsvík markaði þáttaskil í hugum fólks. Fram að þeim tíma höfðu menn ekki fundið fyrir batamerkjum, þótt þau væru farin að mælast í hagtölum. Samningurinn hefur þegar haft sálrænt gildi, þótt verk sé ekki hafið.

Atvinnulífinu vegnaði mun betur árið 1995 en árin á undan. Árangurinn endurspeglar bætta rekstrartækni og aðhaldsaðgerðir, sem hafa gert mörg íslenzk fyrirtæki mun framleiðnari og öflugri. Þau skila nú afrakstri í líkingu við það, sem talið er eðlilegt í útlöndum.

Vinsældir hlutabréfa hafa aukizt við þetta. Kaupendur hafa reynzt sólgnir í aðild að hlutabréfasjóðum, því eignarformi, er sennilega hentar bezt venjulegu fólki, sem ekki ræður yfir stórum fjárhæðum og hefur hvorki tíma né þekkingu til að velja beztu fyrirtækin.

Velgengni fyrirtækja hefur endurspeglazt í bættum kjörum fólks, aukinni einkaneyzlu og meiri kaupmætti ráðstöfunartekna. Jólakauptíðin sýndi líka, að mikill meirihluti fólks hefur peninga milli handa og getur veitt sér ýmsa hluti, sem ekki eru bráðnauðsynlegir.

Það bætir stöðu þessa fólks, að erfiðleikar síðustu ára hafa kennt því að fara betur með peninga en áður. Þegar aukavinna dróst saman, lærði mikill fjöldi fólks að komast betur af á minni tekjum en það hafði áður. Kreppan hafði jákvæð áhrif með því að vera lærdómsrík.

Hins vegar hefur atvinna ekki aukizt í landinu. Fyrirtæki hafa lært að nýta starfskrafta betur, svo að fleiri hendur komast ekki að, þótt umsvif þjóðarinnar hafi aukizt. Atvinnuleysingjar eru því jafn margir um þessi áramót og þeir hafa verið um tvenn síðustu áramót.

Raunar hefur versnað staða atvinnuleysingja og annarra, sem á einhvern hátt eru minni máttar og þurfa að þiggja aðstoð eða nota ódýra þjónustu ríkisins. Ríkið er í seinni tíð farið að reyna að spara með því að skera niður velferðina. Það kemur niður á þeim verst settu.

Einstæðar mæður, aldraðir, öryrkjar, sjúklingar, skólafólk og atvinnuleysingjar eru í hópi þeirra, sem enn búa í kreppu undanfarinna ára. Sumt af þessu fólki tekur þátt í bjartsýni hinna um þessi áramót. Það telur, að velgengnin muni sáldrast niður í þjóðfélaginu.

Versta hlið kreppunnar og raunar einnig fyrstu batamerkjanna eftir kreppuna er, að stéttaskipting hefur aukizt. Meira bil en áður er milli hinna vel stæðu og miðlungsstæðu annars vegar og hins vegar hinna illa stæðu. Þetta veldur til dæmis óróa á vinnumarkaði.

Vandamálið er torleystara en ella fyrir þá sök, að undirstéttin í þjóðfélaginu er ekki lengur meirihluti fólks eins og var fyrr á öldum, heldur er hún í minnihluta. Það er því erfitt fyrir hana að sækja rétt sinn í hendur hinna, sem betur mega sín og vilja hafa skatta í hófi.

Eitt brýnasta verkefni þjóðarinnar í væntanlegu góðæri ársins 1996 er að draga úr nýju stéttaskiptingunni. Skammgóður vermir er að góðum kjörum meirihlutans, ef bág staða og rýrð velferð minnihlutahópa veldur ósætti og illdeilum, sundrungu og skæruhernaði.

Við erum svo fámenn þjóð, að við höfum ekki ráð á tekjuskiptingu, sem framleiðir svo mikla óánægju minnihlutahópa, að það raski gangverki þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV