Varla vinsamlegt orð

Greinar

Ef alþýða manna mætti ráða, yrði öllum ráðherrum, þingmönnum og öðrum stjórnmálamönnum vísað úr landi. Meirihluti manna virðist líta á þessa höfðingja sem annaðhvort fífl eða glæpamenn, nema hvort tveggja sé.

Í skoðanakönnun Dagblaðsins um alþingiskosningarnar í Reykjavík féll varla vinsamlegt orð í garð stjórnmálamanna. Af 300 mönnum úr símaskránni var tæpast nokkur, sem lýsti virðingu á leiðtogum þjóðarinnar til hægri eða vinstri.

“Hér er upplausn og rotnun í öllum málum. Þessir menn, sem við stjórnvölinn sitja, hafa brugðizt okkur illa og því verðum við að svipast um eftir nýjum mönnum. Ekki skiptir máli, í hvaða flokki þeir eru, aðeins að þeir séu heiðarlegir.”

Fleira var sagt í þessum dúr: “Maður er óákveðinn, af því að maður er leiksoppur og lætur allt viðgangast, óafvitandi hvað er að gerast.” Og jafnvel þetta: “Ekkert nema gott einræði getur bjargað okkur úr.þessu.”

Margir eru bitrir vegna verðbólgunnar: “Það er búið að skemma fyrir manni allar gömlu hugsjónirnar og það er ómögulegt þjóðfélag, þar sem húsmóðirin hefur ekki nokkra möguleika á að fylgjast með, hvað verðlagið er frá degi til dags.”

Sumir geta sagt langa sögu í stuttu og hnitmiðuðu máli: “Það er mál, sem enginn flokkur virðist hreyfa við, það eru efnahagsmálin.” Svona ummæli segja ótrúlega margt.

“Ég er hneyksluð á hví, hvernig Íslendingar hegða sér, þeir kjósa bara eftir tradisjón, hafa engar heilbrigðar skoðanir. Sjálf er ég aronisti og ætla að ógilda atkvæði mitt.” Þetta er fordæmi, sem margir segjast ætla að fylgja.

Sumir trúa því ekki, að nýir siðir komi með nýjum herrum: “Því miður hef ég ekki trú á, að nýir strákar á alþingi breyti neinu. Þeim verður strax spillt með launuðum aukastöðum og öðrum bitlingum. Stjórnmálamennirnir hér nota sömu aðferðir og mafíuforingjarnir í Bandaríkjunum, gera menn samseka, svo að þeir þegi og hlýði.”

Fleira er sagt í þessum dúr: “Þessi verkföll duga ekki. Stjórnin verður að gera skyldu sína og leysa þann hnút, sem HÚN hefur sett kjaramálin í. Það er ekki víst, að hér gildi sama formúla og hjá Alþjóðabankanum eða í Bilderberg-klúbbnum.”

Dæmigerð eru þessi ummæli: “Mikilvægasta málið í alþingiskosningunum er, að kosnir verði menn, sem geta stjórnað landinu. Þeir, sem nú sitja á þingi, hafa sýnt, að þeir gera það ekki. Það skiptir engu máli, hvernig þingið er samansett í flokkslegu tilliti.”

Og áfram er sama smjörið: “Er þetta ekki allt sami grauturinn í sömu skál? Ég er ekkert viss um, að ég kjósi núna.” “Ég hef engan áhuga á þessum kosningum og ætla að sitja heima.” “Ég vil engan af þessum fuglum.” “Þeir eru allir eins, þegar þeir eru komnir í stólana.” Og loks: “Þetta er nú orðin svo mikil vitleysa, væni minn, að ég ætla ekkert að kjósa meira!”

Loks eru svo þeir, sem líta á landið sem Kardimommubæ: “Ég kýs trélistann”, “Ég kýs mistök frjálslyndra og allra handa.” Og : “Aðalmálið er að fækka prúðuleikurunum.”

Mikil og þung er ábyrgð leiðtoganna, sem hafa framkallað öll þau ummæli, sem vitnað er til hér að ofan.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið