Varanlegar umbætur

Greinar

Til þessa hefur mestur tími hinnar nýju ríkisstjórnar farið í tilraunir til að leysa efnahagsvandamál líðandi stundar. En stjórnin hefur einnig gefið sér tíma tíma til að hefja undirbúning langtímaaðgerða á sviði efnahagsmála. Í stefnuræðu sinni hefur Geir Hallgrímsson forsætisráðherra lýst margvíslegum hugmyndum ríkisstjórnarinnar um varanlegar umbætur í efnahagsmálum.

Ríkisstjórnin leggur sérstaka áherzlu á hagsveiflujöfnun, bæði með aðferðum, sem áður hefur verið beitt, og með með nýjum aðferðum. Ríkisstjórnin hyggst áfram beita gjaldeyrisvarasjóði, sveigjanlegri gengisskráningu, verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og aukinni stóriðju til þess að draga úr sveiflum. Og hún hefur áhuga á að fara að beita sveigjanlegri vöxtum og verðtryggingu fjárskuldbindinga í þessu skyni, svo og að vinna að eflingu varasjóða ríkis, sveitarfélaga, atvinnugreina og fyrirtækja.

Ríkisstjórnin telur, að núverandi kerfi kaupgreiðsluvísitölu sé hættulegt, þótt það hafi nokkra kosti. Hún vill nota næstu mánuði til að endurbæta þetta kerfi í samráði við samtök launþega og vinnuveitenda. Hún vill fyrir sitt leyti stuðla að því, að samtök vinnumarkaðsins komi á bættum vinnuaðferðum við gerð kjarasamninga, bæði að því er varðar aðdraganda samninga, uppsagnarfresti og tímasetningu kröfugerðar, og að því er varðar milligöngu sáttasemjara. Ennfremur vill hún koma fastri skipun á samráðin við aðila vinnumarkaðsins.

Ríkisstjórnin hyggst koma í veg fyrir, að menn þurfi að greiða tekjuskatt af almennum launatekjum og miðar við, að hjón með tvö börn greiði ekki tekjuskatt af 1100 þúsund króna brúttótekjum eða 830 þúsund króna nettótekjum. Jafnframt er hún að vinna að því að sameina þegar í vetur fjölskyldubætur og tekjuskatt og á það að vera fyrsta skrefið í sameiningu tekjuskatts og helztu bóta almannatrygginga svo og ef til vill einnig ýmissa bóta lífeyristrygginga.

Ríkisstjórnin vill vinna að því að minnka misræmið á stöðu lífeyrisþega, sem stafar af því, að sumir sjóðir þeirra eru verðtryggðir en aðrir ekki. Hyggst hún koma upp rammalögum um starfshætti lífeyrissjóða, þar sem einkum sé fjallað um, hvernig haga skuli ávöxtun og verðtryggingu lífeyris og útlána.

Þess hefur áður verið getið, að ríkisstjórnin hefur lagt grundvöll að gjörbreytingu á aðstöðunni til að efla jafnvægi í byggð landsins. Af heildarupphæð fjárlagafrumvarpsins eru 2% lögð í byggðasjóð og mun afl hans þá margfaldast.

Ríkisstjórnin hyggst ennfremur hverfa frá núverandi kerfi verðlagshafta, sem er gamall arfur frá krepputímanum, og taka í þess stað upp frjálslegra kerfi, sem reynzt hefur vel á Norðurlöndunum og í fleiri nágrannalöndum okkar.

Þá vill ríkisstjórnin breyta áætlanagerð sinni fyrir efnahagslífið á þann hátt, að hún sé ekki í formi valdbundinna framkvæmdaáætlana, heldur til viðmiðunar og leiðbeiningar fyrir einstaklinga, samtök þeirra, fyrirtæki og atvinnuvegi.

Loks leggur ríkisstjórnin sérstaka áherzlu á aukinn hraða í virkjun íslenzkra orkugjafa, bæði til iðnvæðingar og til að gera Íslendinga sem minnst háða innfluttri orku. Hyggst hún gera þetta að einu helzta forgangsmáli sínu.

Jónas Kristjánsson

Vísir