Vandamál hér og vandamál þar

Greinar

Við megum aldrei missa sjónar á því, að vandamál okkar eru flest hlægilega lítilfjörleg á mælikvarða hins stóra umheims. Í rauninni getum við prísað okkur sæl fyrir að sitja hér einangruð norður í hafi með Vesturlönd á báða vegu, langt í burtu frá vandamálum þriðja heimsins og Austur-Evrópu.

Auðvitað verðum við að reyna að taka föstum tökum á óstjórn núverandi og fyrri ráðamanna, á verðbólgunni og efnahagsöngþveitinu. Við þurfum að stöðva dans flokksgæðinga, bankastjóra og stjórnmálamanna umhverfis verðbólguna og reisa nýjan grunn undir réttarfarið í landinu.

En óstjórn og aumingjaskapur er betri en ofstjórn og skepnuskapur ráðamanna Austur-Evrópu. Og Batti rauði er minna vandamál í velmegunarþjóðfélagi en lukkuriddarar þriðja heimsins eru í löndum sínum. Okkar tegund vandamála er í rauninni ágæt tegund vandamála.

Með þessu er ekki verið að gefa í skyn, að við eigum að láta okkur vandamál Íslands í léttu rúmi liggja. Við eigum að sjálfsögðu að ráðast gegn þeim með oddi og egg. Þjóðskipulagi hættir jafnan til að rotna hér og þar, hversu heilbrigður sem grunnur þess er. Gegn slíku verður að ráðast, þótt menn séu sammála um grunninn.

Í Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra eru vandamálin hrikalegri, enda byggjast þau á stjórnkerfi mannfyrirlitningar. Þar er reynt að hefta flest það, sem göfgar manninn, svo sem ferðafrelsi, hugsanafrelsi, upplýsingafrelsi og tjáningarfrelsi. Geðveikrahæli fyrir pólitíska fanga er einkennistákn þessa villta afturhaldsþjóðfélags.

Mannhatrið gengur þar svo langt, að jafnvel spil með trékubba á litlu borði verður tilefni ofsókna um þveran hnöttinn. Menn muna eftir ofsóknunum gegn tékkneska skákmeistaranum Pachmann, þegar hann var kominn í útlegð, og enn eru mönnum í fersku minni tilraunirnar til að knésetja sovézka skákmeistarann Kortsnoj á svipaðan hátt.

Þegar ástandið er svona í skákinni, er engin furða, þótt það sé slæmt í vísindum, listum og bókmenntum. Ef einhvers staðar í Sovétríkjunum örlar á sjálfstæðri hugsun, standa dyr geðveikrahælanna jafnan opnar. Og verði andófsmenn of fyrirferðarmiklir, eru þeir einangraðir á annan hátt. Þeir eru reknir úr landi.

Á sama tíma eru stjórnvöld þar eystra svo ósvífin að sitja langa fundi með vestrænum stjórnvöldum og semja Helsinki-yfirlýsingar um nauðsyn ferðafrelsis og upplýsingafrelsis. Stjórn Sovétríkjanna tekur álíka mikið mark á undirritun slíkra yfirlýsinga og hún tekur á undirritun mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Vestrænir eiginhagsmunamenn á borð við Kissinger sjá sér hag í að umgangast fangelsisstjórana eins og menn, þótt eini munurinn á þeim og Pinochet í Chile og Amin í Uganda sé sá, að Brésnéf er voldugri.

Við megum aldrei verða svo upptekin af eigin vandamálum, að við gleymum hinum miklu vandamálum náunga okkar úti í heimi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið