Valda verkamenn verðbólgu?

Greinar

Um langt skeið hefur það verið tízka sérfræðinga að kenna óraunhæfum kjarasamningum um verðbólgu. Þeir tala minna um, að háir kjarasamningar geti stafað af verðbólgu. Eru þó bæði þessi atriði þættir í hringrás, þar sem útilokað er að finna upphaf og endi.

Guðfræðingar miðalda áttu erfitt með að átta sig á, hvort hafi verið til á undan, eggið eða hænan. En sérfræðingar nútímans eru margir hverjir vissir um, að kjarasamningar séu á undan verðbólgunni en ekki öfugt. Þessi einstefna hefur verið notuð til að stuðla að láglaunaþjóðfélagi á Íslandi.

Dæmið um eggið og hænuna er að vísu flóknara en dæmið um kjarasamninga og verðbólgu. Stundum eru kjarasamningar meiri orsök en afleiðing verðbólgu og stundum er þetta öfugt. Þessi atriði verður að skoða og meta hverju sinni.

Óraunhæfir kjarasamningar stuðluðu fyrir nokkrum árum að því að koma verðbólgunni á þá flugferð,sem við höfum nú reynslu af. En upp á síðkastið hafa kjarasamningar verið varfærnislegir og örugglega fremur afleiðing en orsök veróbólgu. Verðbólga undanfarinna ára er áreiðanlega öðru fremur um að kenna en kjarasamningum.

Mesti verðbólguvaldurinn er ríkisstjórnin. Hún hefur magnað verðbólguna með því að þenja út opinbera geirann í þjóðarbúskapnum. Vinstri stjórnin var á þremur árum búin að þenja opinbera geirann úr 28% Í 32% og nú er hægri stjórnin búin að þenja hann úr 32% í 36%.

Þessi þensla hefur að sjálfsögðu komið niður á atvinnurekstri og almenningi. Geiri þeirra hefur minnkað að sama skapi. Það er því hvorki atvinnureksturinn né launþegarnir, sem hafa magnað veróbólguna að undanförnu. Forustan Í verðbólgunni er eingöngu í höndum ríkisstjórnarinnar.

Ýmislegt verður undan að láta í þjóðfélagi, þar sem ríkisstjórnin er eins og útspýtt hundskinn Í þjónustunni við ýmsa þrýstihópa. Þetta komur fram í uppbótum og niðurgreiðslum, þrýstingi fjármagns til sérþarfasjóða og óbærilegu framkvæmdafylleríi alþingismanna, svo að nokkur helztu dæmin séu nefnd.

Alvarlegast er þó, að umhverfis stjórnmálaflokkana standa verðbólgubraskarar. Að tilstuðlan flokkanna hafa þeir óeðlilega mikinn aðgang að lánsfé. Verðbólgan veldur því, að þetta lánsfé er í rauninni að verulegu leyti gjöf til lántakanda. Voldugir hagsmunir beinast þess vegna að því að halda við verðbólgunni.

Stjórnmálamennirnir hafa hátt um baráttugleði sína gegn verðbólgunni. En í rauninni er þeim flestum ýmist sama um hana eða þeir fagna henni. Milli þeirra og verðbólgubraskaranna hefur myndazt bandalag, sem hindrar, að þjóðin fái losnað við böl verðbólgunnar.

Svo er láglaunafólkinu kennt um allt saman. Það er sagt, að óraunhæfar kröfur þess og kjarasamningar valdi vandræðunum. Það er örugglega fráleitasta hagfræðikenning, sem sézt hefur hér á landi um nokkurt skeið. En hún er dæmi um, hversu traustum fótum stjórnmálamennirnir og verðbólgubraskararnir telja sig standa.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið