Vaknið nú, hræsnarar

Greinar

Rússneski rithöfundurinn Solzhenitsyn hefur veitt vestrænum þjóðum verðuga ráðningu fyrir hræsnina í samskiptum þeirra við Sovétríkin. Vonin um viðskiptahagnað og friðsamlega sambúð austurs og vesturs hefur gert Vesturlandabúa ónæma fyrir vitneskjunni um grimmdarkerfi Sovétríkjanna.

Vestræn stjórnvöld hafa sífellt vinsamlegri samskipti við sovézk stjórnvöld og þykjast því eiga erfiðara með en áður að ota frjálshyggju að þeim. Vinsamleg samskipti út á við gera sovétstjórninni kleift að beita meiri hörku inn á við. Þess vegna eru sovézkir frjálshyggjumenn fórnardýr hinnar pólitísku hláku í samskiptum austurs og vesturs.

Sænskir og danskir stjórnmálamenn hafa þorað að opna munninn út af nýstalínismanum í Sovétríkjunum. Þeim hefur verið svarað harðlega og þeir sakaðir um að leggja stein í götu friðarhreyfingarinnar í Evrópu. Og svo langt eru Vesturlandabúar leiddir af friðardúfukvakinu, að þeir taka mark á þessari óhugnanlegu röksemdafærslu sovétstjórnarinnar.

Frjálshyggjumenn í Sovétríkjunum eru nú miskunnarlaust sendir á svokölluð geðveikrahæli, þar sem þeir eru eyðilagðir með lyfjum. Síðan eru þeir sendir í skríparéttarhöld, sem vestrænir fréttamenn fá ekki að vera viðstaddir, þar sem fórnardýrin játa glæpi gegn Sovétríkjunum og ljóstra upp um aðra hliðstæða glæpamenn. Aðrir eru kerfisbundið sendir á þriggja ára fresti í þriggja ára þrælkun. Syndir feðranna eru einnig látnar koma niður á börnunum, sem eru rekin úr skóla og vinnu.

Hinn frjálslyndi tími Krústjoffs er liðinn. Hinir nýju valdhafar geta veitt villimannlegri stefnu sinni fullkomna útrás, af því að þeir vita, að vestrænar þjóðir hafa meiri áhuga á að lækka útgjöld til varnarmála og auka tekjur af viðskiptum við Sovétríkin en að gæta hagsmuna lýðræðis og frjálshyggju í heiminum.

Rússneski vísindamaðurinn Sakkarof hefur réttilega varað vestrænar þjóðir við of mikilli bjartsýni í öryggismálum Evrópu. Hann segir vígvætt og einangrað alræðisríki eins og Sovétríkin enn vera hættulegt nágrönnum sínum. Hann þorir að segja það, sem margir vestrænir stjórnmálamenn eru hættir að þora að segja af ótta við að vera kallaðir kaldastríðsmenn.

Kjarkur Solzhenitsyns og Sakkarofs er eins og rýtingsstunga í lélega samvizku vestrænna þjóða. Kannski verða áminningar þeirra til þess, að við förum að setja sovétstjórninni skilyrði fyrir frekari hláku í samskiptunum. Við verðum að reyna að hjálpa frjálshyggjumönnum Sovétríkjanna með því að beina öllum þunga almenningsálitsins á Vesturlöndum gegn villimennsku sovétstjórnarinnar í garð þeirra.

Við verðum að vakna af svefni okkar og taka á okkur ábyrgðarhluta af því, að hvílíku helvíti fyrir frjálshyggjumenn hlákan hefur gert Sovétríkin. Ef við mætum sovétstjórninni af fullri einurð, kann að koma í ljós, hvort hún leggur nægilega mikið upp úr friðsamlegri sambúð til að þora að leggja niður eitthvað af villimennskunni í mannfrelsismálum.

Jónas Kristjánsson

Vísir