“Upp, upp, mín uppmæling”

Greinar

Uppmælingaraðallinn stóð í vegi fyrir því, að heildarsamningar um laun og kjör í landinu næðust um helgina. Eins og oftar áður ætlar hann sér meiri hlut en öðrum og hefur töluverða möguleika á að ná árangri.

Þessi yfirstétt skákar í því skjóli að semja við sjálfa sig. Hinir raunverulegu launagreiðendur í byggingariðnaði, húsbyggjendur, koma þar hvergi nærri. Það eru meistarar og sveinar, sem semja. Eru þeir þó í sama báti, því að meistarar eru á prósentum af launum sveina.

Að sjálfsögðu býður þetta upp á svikamyllu, sem hefur gert íslenzkan byggingakostnað tiltölulega háan miðað við annan kostnað. Byggingariðnaðarmenn hafa hér á landi miðað við nágrannalöndin tiltölulega góða stöðu í annars lágu launakerfi. Þeir komast nær norrænum lífskjörum en flestar aðrar stéttir.

Sú láglaunastefna, sem felst í samkomulaginu um að greiða fasta krónutölu á allt kaup, breytir ekki þessu misræmi. Hún þrengir ekki í krónum bilið milli uppmælingaraðalsins og láglaunafólks.

Yfirstéttin var ekki ánægð með þetta. Hún vildi fá uppmælingarprósentur ofan á krónutölur samkomulagsins. Hún sætti sig ekki við, að þessar prósentur lækki á þann hátt, að uppmælingar hækki um sömu krónutölur og önnur laun í landinu.

Ef til vill er ástæðulaust að gera veður út af því, að einhverjir hafi það tiltölulega betra en aðrir, ef lífskjör þeirra eru samt ekki eins góð og starfsbræðra þeirra í nágrannalöndunum. Hinir faglærðu hafa góða aðstöðu til að fá starf í þessum löndum. Láglaunastefnan getur ekki rutt brott lögmáli framboðs og eftirspurnar.

Hins vegar er almennt samkomulag um það í þjóðfélaginu, að kjarasamningar þessa árs skuli vera gerðir undir merki félagslegs réttlætis. Allir þurfa að lifa, þótt þeir eigi ekki fyrirtæki, axli ekki sérstaka ábyrgð, hafi ekki sérstaka menntun og hafi litla möguleika á að bæta sér upp lág laun með mikilli yfirvinnu, eða uppmælingu.

Eitt helzta böl þjóðfélagsins er hin mikla lífskjaragjá, sem er milli meirihluta þjóðarinnar, er lifir velsældarlífi, og minnihlutans, er varla á til hnífs og skeiðar vegna skorts á eignum, ábyrgðarstörfum, menntun, yfirvinnu eða uppmælingu. Meginmarkmið kjarasamninganna á að vera að draga úr þessu ranglæti.

Markmiðið, sem kemur næst í röðinni, er að draga úr þörf sem flestra á því að þurfa að byggja á óhóflegri yfirvinnu til að ná þeim tekjum, sem þykja sómasamlegar hér á landi. 37 stundir eru að vísu engin gullin tala, en vafasamt er, að 50 stunda eða lengri vinnuvika þjóni nokkrum tilgangi.

Kjarasamningarnir eru góðir, af því að þeir hafa þessi tvö markmið. Auðvitað taka þeir líka tillit til hinna betur settu, því að annars næðust ekki heildarsamningar. En tilraunir til að fjölga krónum í uppmælingu meira en öðrum krónum eru algerlega utan merkis félagslegs réttlætis.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið