Eitt af mestu feimnismálum haustsins í stjórnmálunum er aðalfundur Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem haldinn var í Vestmannaeyjum um síðustu helgi. Ályktanir þingsins skutu ráðamönnum Sjálfstæðisflokksins slíkan skelk í bringu, að þær má ekki nefna í málgögnum flokksins.
Vísir gat þess í eindálki eftir helgina, hver hefði verið kosinn formaður sambandsins. Morgunblaðið var litlu kátara. Það nefndi þó ályktun þingsins um kaupin á Víðishúsinu og skýrði óbeint frá afgreiðslu þess á tillögu um nýja stefnu í landbúnaðarmálum.
Öðru vísi mönnum áður brá, þegar Morgunblaðið fjallaði um aðalfundi Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hinir mörgu fermetrar af viðtölum eru horfnir, enda er ritstjórn blaðsins trúlega dösuð eftir nokkra fermetra af viðtölum við áhugamenn um Atlantshafsbandalagið.
Hin óhreinu börn Sjálfstæðisflokksins brutust undan flokksaganum og tóku til umræðu mál, sem bannað hefur verið að ræða á vegum flokksins og í málgögnum hans. Hinir gamalgrónu leiðtogar flokksins hafa ákveðið að loka augunum og láta sem ályktanir hinna ungu hafi aldrei verið gerðar og séu ekki til.
Í tillögunni, sem þingið samþykkti um kaupin á Víðishúsinu, fólst hörð gagnrýni á meðferð ráðherra flokksins á málinu. Skorað var á stjórnvöld að upplýsa nú þegar matsgerð sérfræðinga á húsinu. Sú matsgerð er eins konar ríkisleyndarmál, enda felur hún í sér, að óverjandi sé að kaupa húsið.
Í tillögunni, sem þingið samþykkti um nýja stefnu í landbúnaðarmálum, var tekið undir hugmyndir leiðarahöfunda Dagblaðsins um, að heilbrigð samkeppni ríki í verzlun með landbúnaðarvörur.
Til viðbótar fjallaði þingið á jákvæðan hátt um tillögur Arons Guðbrandssonar um fjármál varnarliðsins og tillögur Kristjáns Friðrikssonar um auðlindaskatt og nýiðnaðarstefnu. Samþykkt var að vísa tillögum um þessi mál til frekari umfjöllunar í stjórn sambandsins svo og tillögu um afnám niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum.
Tillögur Arons og Kristjáns hafa töluvert verið ræddar í kjöllurum og leiðurum Dagblaðsins. Til viðbótar hefur Kristján sjálfur kynnt tillögur sínar í Tímanum. Annars staðar hefur ríkt grafarþögn um þessi merku nýmæli í stjórnmálum Íslands.
Það hljóta að teljast merk tíðindi, þegar samtök ungliða ganga þvert á stefnu þá, sem leiðtogar flokksins vilja hafa. Það hljóta að teljast merk tíðindi, þegar ungliðarnir hafna landbúnaðarstefnu flokksins og vekja athygli á stefnum í varnarmálum, útvegsmálum og iðnaðarmálum, sem brjóta í berhögg við stefnu flokksins.
Ekki eru það síður merk tíðindi, að samtök ungliða taka flokksleiðtoga sína rækilega í karphúsið fyrir eitt grófasta dæmi þeirrar spillingar, sem blómstrar í helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Hins vegar er líka skiljanlegt, að Morgunblaðinu og Vísi þyki þetta ómerk tíðindi, er bezt sé að gleyma sem fyrst.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið