Verð á einu kílói af Dagblaðinu er 750 krónur eða tíu sinnum óhagstæðara en verðið á einu kílói af Politiken og Berlingi, sem er aðeins 75 krónur, segir í gamansamri grein Agnars Guðnasonar, talsmanns samtaka landbúnaðarins, er birtist í Dagblaðinu á mánudaginn.
Agnar er þarna að beita hliðstæðum reikningsaðferðum gagnvart Dagblaðinu og blaðið hefur beitt gagnvart landbúnaðinum. Kjarni greinar hans er, þótt ekki sé það með berum orðum sagt, að Dagblaðið ætti ekki að vera að taka mikið upp í sig um landbúnaðinn.
Óneitanlega er röksemdafærsla Agnars miklu hugnanlegri og skemmtilegri en sú, sem talsmenn landbúnaðarins tömdu sér fyrir tveimur árum, þegar þeir gengu berserksgang í að beina viðskiptum frá tveimur bílaumboðum, sem áttu Vísi og eiga enn, í því skyni að hræða þau til að stöðva skrif Vísis um landbúnað í þá daga.
Og ekki síður yljar það Dagblaðsmönnum um hjartarætur, er þeir minnast hins umtalsverða þáttar, sem talsmenn landbúnaðarins eiga í stofnun, vexti og viðgangi Dagblaðsins. Sennilega hefði Dagblaðið ekki lánazt, ef talsmenn landbúnaðarins hefðu ekki verið svo framtakssamir á sínum tíma.
Það er því engin furða, þótt talsmenn landbúnaðarins vilji gjarna fylgjast með þessu óhreina barni sínu og kenna því betri siði, þegar tilefni gefst til. En þeir gera það sem guðfeður Dagblaðsins og ekki sem skattgreið- endur.
Dagblaðið þiggur ekki eina krónu úr ríkissjóði, þótt hin dagblöðin geri það, ýmist beint eða óbeint í gegnum auglýsingareikninga til þingflokkanna. Dagblaðið er því ekki áhyggjuefni fyrir skattgreiðendur. Það er landbúnaðurinn hins vegar, því að hann þiggur í ár tæpa níu milljarða króna úr ríkissjóði.
Enginn þarf að kaupa og lesa Dagblaðið, ef hann kærir sig ekki um það. Menn eru frjálsir að því að kaupa Politiken og Berling á 75 krónur kílóið, ef þeir vilja. Engar hömlur og ekki einu sinni tollar eru lagðir á innflutning þessara ágætu dagblaða.
Menn mega meira að segja vera svo sérvitrir að kaupa Tímann í stað Dagblaðsins, ef þeim er mikið í mun að efla á degi hverjum bjargfasta trú sína á réttmætti núverandi stefnu stjórnvalda í landbúnaðarmálum.
Vilji einhver hins vegar hafna súpukjöti á 750 krónur kílóið og kaupa í þess stað danska skinku á 300 krónur kílóið, þá má hann það ekki. Danska skinkan er ekki eins vel séð af íslenzkum stjórnvöldum og danski Berlingur. Er hún þó sama danska gæðavaran.
Ef atvinnugrein eða fyrirtæki eru illa rekin, verður það ekki almennt áhyggjuefni, fyrr en samkeppni er bönnuð og starfsemin kemst á ríkisframfæri.
Þess vegna þarf talsmaður landbúnaðarins ekki að hafa áhyggjur af rekstri Dagblaðsins. En Dagblaðið hefur hins vegar fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af rekstri landbúnaðarins.
8,7 milljarðar á fjárlögum og innflutningsbann skilja á milli feigs og ófeigs í umræðum um gildi einstakra atvinnugreina og fyrirtækja.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið