Tveir formenn segi af sér

Greinar

Undir forustu Ólafs Jóhannessonar hefur Framsóknarflokkurinn tapað nærri þriðjungi af fylgi sínu og undir forustu Geirs Hallgrímssonar hefur Sjálfstæðisflokkurinn tapað nærri fjórðungi af fylgi sínu.

Þessi útreið nálgast hrun. Í nágrannalöndum okkar mundi hún leiða til þess, að Ólafur og Geir segðu af sér formennsku í flokkum sínum í því skyni, að nýir menn gætu reynt að endurreisa flokkana úr eymd þeirra.

Eðlilegt væri, að slíkar kröfur kæmu nú fram í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Því miður eru ekki horfur á, að leiðtogarnir tveir vilji sjá það, sem letrað er á vegginn. Því valda innanflokksvandamál.

Flokkseigendafélög beggja flokkanna vilja heldur hafa tögl og hagldir í litlum flokki en vera valdalítil í stórum flokki. Þess vegna munu flokksleiðtogarnir sem oddvitar eigendafélaganna sennilega reyna að sitja sem fastast.

Ef þeim tekst þetta, má búast við miklum töfum í viðleitni framsóknarmanna og sjálfstæðismanna við að endurreisa flokkana í tæka tíð fyrir næstu kosningar. Helzta von sjálfstæðismanna væri þá fólgin í, að hugsanleg vinstri stjórn mundi leysa vandann með óvinsældunum, sem slíkar stjórnir hafa jafnan bakað sér.

Slíka von hafa framsóknarmenn ekki, því að vinstri stjórn þyrfti á flokki þeirra að halda til að hafa meirihluta á þingi. Útreiðin í kosningunum veldur því, að framsóknarmenn verða tregir til slíks samstarfs eins og raunar til hvaða stjórnarsamstarfs sem er.

Hugsanlega gætu framsóknarmenn þegið nýsköpunarstjórn eða viðreisnarstjórn í eitt kjörtímabil til þess að fá tíma til að sleikja sárin. Svo mikið er forustuleysið í íslenzkum stjórnmálum, að fáir reikna með, að komandi stjórn afli sér vinsælda af gerðum sínum.

Jafnvel sigurvegari kosninganna, Alþýðuflokkurinn, getur ekki gengið til stjórnarmyndunar með jafnaðargeði. Hinir nýju menn flokksins eru búnir að vekja svo miklar vonir með fólki, að þeir munu eiga fullt í fangi með að standa undir þeirri ábyrgð.

Stjórnarhorfur eru því óljósar. Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn geta verið vissir um að geta læknað sín innri mein með því að vera stikkfrí á þessu kjörtímabili. Hætt er við, að fylgisleysi þeirra og innanmein verði varanlegt, ef þeir endurnýja ekki forustusveitirnar.

Þegar Birgir Ísleifur Gunnarsson var felldur í borgarstjórnarkosningunum, var bakari hengdur fyrir smið. Margir héldu, að fyrrverandi stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins mundi verða hverft við úrslit borgarstjórnarkosninganna og þeir snúa aftur til föðurhúsanna. En þeir héldu áfram og hengdu smiðinn líka, Geir Hallgrímsson.

Athyglisvert var, að baráttutæki Sjálfstæðisflokksins hampaði eingöngu Geir Hallgrímssyni af forustusveit flokksins í lokahríð kosningabaráttunnar. Sú persónulega tenging eykur ábyrgð Geirs á úrslitunum gagnvart flokksmönnum sínum. Svipað má segja, en í minna mæli, um Ólaf Jóhannesson.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið