Tveir fiskar

Veitingar

****
Rétt eldaður fiskur

Af vizku sinni hefur arkitekt hússins sett risaglugga út að bílastæðum og pínuglugga í eldhúsið, þar sem kokkur Tveggja fiska getur kíkt út á bátahöfnina til að koma sér í gott skap. Enda eldar hann mjög vel, er í toppklassa íslenzkrar veitingamennsku, ekkert illa haldinn af nýklassík kokkaskólans. Fyrst og fremst eldar hann ekki fiskinn lengur en nauðsynlega þarf, lætur hann hafa forgang fram yfir skreytingar á diski.

Því miður hafa gestir löngum verið fremur fáir á Tveimur fiskum, þótt hér sé einn bezti fiskréttastaður landsins með fjölbreyttu úrvali fisktegunda með ýmiss konar spennandi matreiðslu. Staðurinn hefur ekki slegið í gegn, en nýtur erlendra ferðamanna, er fá það, sem mörlandinn fer á mis.

Inni er notalegt, þótt innréttingar séu að mestu hinar sömu og við opnunina fyrir fimm árum. Hringborð, kertaljós og rósir gefa staðnum mildari svip en áður. Hér er meira að segja huggulegt í hádeginu við kertaljós og hvítt lín í borðdúkum og munnþurrkum. Þá kostar 2300 krónur þríréttað, en á kvöldin er staðurinn nálægt toppverði, 6100 krónum að meðaltali þríréttað.

Eina bilunin var í hádeginu, þegar þjónninn vissi ekki, hver var fiskur dagsins og síðan ekki, hvernig sósa var með honum, og þegar á borð var borin aflöng og heit brauðkolla innflutt, dregin upp úr frystikistu og sett í örbylgjuofn, minnti á kruðu eða tvíböku, algerlega bragðlaus.

Fátt var út á matreiðsluna að setja. Sjávarréttasúpa var úr humarsoði, hæfilega þunn, með hörpudiski, risaræku og laxabita. Gott síldartartar var borið fram á rúgbrauði með piparrótarsósu. Soðin bláskel írskrar ættar í freyðivíni með blöðrukáli var meyr og fín. Sama er að segja um hvítlauksristaða hörpuskel á villisveppa-hrísgrjónagrauti með stökkri parmaskinku ofan á.

Aðalréttir blómstruðu. Fínn var mjög svo hæfilega pönnusteiktur þorskur með fáfnisgrassósu og kryddlegnar gellur, en kartöflurnar voru ofsteiktar, líklega úr örbylgjuofni. Þær voru það líka með pönnusteiktri löngu, kryddaðri með steinselju, á grænmetisjukki í tómatsósu. Ofnbökuð smálúða með tígrisrækjum og saffrankrydduðu kartöflumauki var fyrirtaks réttur, sér í lagi fiskurinn.

Creme caramel matseðilsins með stökkri karamelluskán kom ekki á borðið, heldur venjulegur karamellubúðingur með súkkulaðisósu. Þrír ísar voru góðir, blárauður berjaís, rauðgulur plómuís og gulur venjulegur. Kókos-parfait með ferskum ávöxtum var bezti eftirrétturinn. Kaffið var daufur endapunktur.

Jónas Kristjánsson

DV