Tveggja tíma líf

Greinar

Að hætti íslenzkra smælingja nutu flestir skólafélagar seðlabankastjórans tveggja tíma aðildar að spillingu yfirstéttarinnar í tilefni stúdentsafmælis. Þeirra maður var orðinn seðlabankastjóri. Loks var röðin komin að þeim að fá að njóta aðildar að illri meðferð opinberra fjármuna.

Að minnsta kosti sýndist mér annar árangur verða harla léttbrýnn, þegar þáverandi viðskiptaráðherra lét freyðivín skattgreiðenda fljóta í afmælisfagnaði miðaldra stúdenta. “Þetta er lífið” sögðu menn. Sárafáir, tveir eða þrír, létu freyðivínið eiga sig til að verða ekki þjófsnautar.

Í öðrum stúdentsárgangi hafa menn það helzt sér til unaðar á afmælisárum að skrölta um landið í rútum til að heimsækja stofnanir á borð við orkuver, þar sem einhver samstúdentinn getur misnotað aðstöðu sína til að láta stofnunina borga brennivín ofan í smælingja, sem koma henni ekkert við.

Í hópum af þessu tagi er sjaldgæft, að menn staldri við og spyrji sig, hvort eðlilegt sé, að seðlabankastjórinn, ráðherrann eða yfirverkfræðingurinn séu svona örlátir á annarra manna fé. Almennt er þjóðin hlynnt spillingu, en sárnar helzt að fá ekki að taka marktækan þátt í henni.

Einn af fjármálaráðherrum fortíðarinnar og síðar landsvirkjunarstjóri orðaði þjóðarsálina einkar vel, þegar hann var gagnrýndur fyrir að bjóða stúdentsárgangi sínum í ráðherrabústaðinn. “Ef ráðherra getur ekki boðið nokkrum bekkjarbræðrum sínum í glas, þá er ekki mikið eftir.”

Í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafs er markvisst gerður greinarmunur á persónulegum fjárhag valdamanna og fjárhag opinberra stofnana. Ef bandarískur ráðherra fer í farartækjum ríkisins á flokkspólitískan fund, sendir ríkið ferðareikningana til viðkomandi flokks eða ráðherrans.

Þar í landi og á Norðurlöndum greiða ráðherrar sjálfir fyrir boð, sem þeir halda ættingjum, vinum eða skólafélögum. Ríkið greiðir bara fyrir risnu, sem er í þágu ríkisins sem stofnunar, en ekki fyrir persónulega risnu eða flokksrisnu. Um rétta og ranga risnu gilda skráðar reglur í alvöruríkjum.

Þetta sjónarmið hafa Íslendingar aldrei skilið. Þegar til kastanna kemur, eru flestir hlynntir spillingu og fagna ákaft, þegar slíkir molar hrjóta af borðum þeirra, sem hafa komið sér fyrir við ríkisjötuna. Þetta er “okkar maður” segja samstúdentar og sturta í sig illa fengnu freyðivíni.

Í frumstæðum þjóðfélögum er litið á aðstöðu hjá ríkinu sem herfang, þar sem eðlilegt sé, að sérvaldir hópar smælingja öðlist tveggja tíma líf við að narta í mola af nægtaborðinu.

Jónas Kristjánsson

DV