Veitingahúsabransinn í Kaupmannahöfn er í föstum skorðum eins og hér á landi. Efst tróna nokkur hús í nýklassískum stíl frönskum, þar af níu með stjörnu í Michelin. Skipti hafa orðið á tveggja stjörnu húsum. Kommandanten í Ny Adelgade að baki Angleterre hótels er dottinn niður í eina stjörnu og Ensemble að baki Konunglega leikhússins hefur í staðinn risið upp í tvær stjörnur. Michelin er að vísu tæpast marktækur mælikvarði, því að hann sér breytingar seint og illa. Eitthvað marktækt hlýtur þó vera að baki breytingum, siginu á Kommandanten og risinu á Ensemble.
