Torfan er ekki friðuð.

Greinar

Bernhöftstorfa hefur ekki verið friðuð, þótt menn ímyndi sér það. Yfirlýsing Ragnars Arnalds menntamálaráðherra um svokallaða friðun hennar felur í sér fyrirvara, sem getur hæglega eytt málinu.

Fyrirvarinn er sá, að alþingi veiti fé til endurnýjunar Torfunnar, ella verði friðunarákvörðunin endurskoðuð. Alþingi á sem sagt eftir að fjalla um málið eða trassa umfjöllun.

Þrátt fyrir viljayfirlýsingu menntamálaráðherra getur alþingi afgreitt málið á annan veg, til dæmis afgreitt það alls ekki. Fjárveitinguna má láta daga uppi eins og hver önnur þingmál.

Vitað er, að meðal þingmanna eru ýmsir harðir andstæðingar Bernhöftstorfu. Þar er í forustu Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra, sem hefur notað húseigandavald til að láta húsin grotna niður.

Alveg er óvíst, að stuðningsmenn Torfunnar séu svo öflugir á alþingi, að þeir geti beitt sér gegn öðrum eins skriðdreka og Ólafi Jóhannessyni, fanatískum andstæðingi Torfunnar.

Flest bendir til þess, að Ólafur muni beita sér af hörku gegn endurreisn Bernhöftstorfu. Ummæli hans að undanförnu benda til, að honum sé umhugað um að beygja Ragnar í máli þessu.

Ólafur segir blákalt, að það sé misskilningur Ragnars, að meirihluti sé í ríkisstjórninni fyrir friðun torfunnar. Þessi ósvífna yfirlýsing er mjög í stíl Ólafs.

Ráðherrarnir Benedikt Gröndal, Hjörleifur Guttormsson, Kjartan Jóhannsson, Ragnar Arnalds og Svavar Gestsson hafa allir lýst opinberlega stuðningi við friðun. Og þetta eru fimm ráðherrar af níu.

Ólafur segir líka blákalt, að Ragnar hafi farið út fyrir verksvið sitt með friðun Torfunnar. Hún heyri undir forsætisráðuneytið. Samt segja húsafriðunarlög, að menntamálaráðherra ákveði friðun húsa.

Það er einkar athyglisvert, hversu frjálslega forsætisráðherrann umgengst staðreyndir. Hann horfir framhjá opinberum yfirlýsingum samráðberra sinna og framhjá nýlegum lögum um húsafriðun.

Þetta minnir á, er Ólafur ákvað skyndilega að gerast harðlínumaður í Jan Mayen málinu og lét málgagn sitt ráðast að fyrri harðlínumönnum fyrir að vera of linir í málinu.

Kannski er hann farinn að lesa Mein Kampf.

Allan áttunda áratuginn hefur Ólafur Jóhannesson ráðið ferðinni í málum Bernhöftstorfu. Hann lét reka leigjendur út og taka rafmagn og hita af húsunum, svo að þau grotnuðu fyrr niður.

Þessi stefna hófst á fyrra forsætisráðherraskeiði Ólafs og hélt áfram á því tímabili, er hann leyfði Geir Hallgrímssyni að vera forsætisráðherra að nafninu til.

Það góða, sem Ragnar Arnalds menntamálaráðherra hefur nú gert í málinu, er að höggva á hnút deilna um, hvort hann eða borgarstjórn ætti að hafa forgöngu um friðun.

Friðunaratlagan getur því hafizt. Og það er enn ekki um seinan. Þór Magnússon þjóðminjavörður hefur sagt, að seint fari húsin í Torfunni svo illa, að þeim mætti ekki bjarga.

Friðunarmenn verða nú að snúa sér að alþingi. Þar dugir ekki að ná meirihluta góðviljaðra þingmanna. Þar dugir aðeins yfirgnæfandi meirihluti, svo að Ólafi takist ekki að svæfa málið.

Leiðarljósið er þjóðminjavarðar: “Í þessum húsum og húsaheildinni allri ofan Lækjargötunnar á þjóðin hvað merkastan byggingararf í kaupstað á Íslandi. Nú er svo komið, að í rauninni er engin slík húsaheild eða húsaröð til frá því um miðja síðustu öld nema þessi eina.”

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið