Kórónan á herferð Morgunblaðsins gegn kjósendum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er skipun Guðmundar H. Garðarssonar alþingismanns sem landfræðings blaðsins, er hlýjaði mönnum um hjartarætur um áramótin.
Daginn fyrir gamlársdag rakti landfræðingurinn í löngu máli í Morgunblaðinu, hvílíkan hnekki Kúrileyjar hefðu beðið af bandarísku hermangi. Þetta þóttu mikil firn, þar sem Kúrileyjar eru hluti af Sovétríkjunum.
Í fyrradag var þetta rugl síðan leiðrétt í Morgunblaðinu, enda voru menn þá búnir að hafa af því næga skemmtan. Hitt situr eftir, að lítið mark er takandi á landafræði þingmanns, sem hvað eftir annað notar orðið Kúrileyjar í stað Míkrónesíu í grein um íslenzka aronsku. Það er eins og að rugla saman Aroni og Geir.
Leiðréttingardaginn voru enn höfð uppi gamanmál í Morgunblaðinu, er Bessí Jóhannsdóttir varaborgarfulltrúi var á sjó dregin. Notaði hún athyglisverða röksemdafærslu til að sýna fram á, að ekki væri mark takandi á niðurstöðum skoðanakönnunar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Röksemdafærslan var þessi: Fíflin kusu vitlaust, af því að Morgunblaðið var ekki búið að tyggja ofan í þau, hvernig þau ættu að kjósa. Fíflin kusu vitlaust, af því að þau lesa ekki leiðara Morgunblaðsins. Fíflin kusu vitlaust, af því að þau lesa Dagblaðið.
Þessi röksemdafærsla er í samræmi við dagskipun hermangsdeildar Sjálfstæðisflokksins, flokkseigendafélagsins, sem að undanförnu hefur birzt í ótal myndum. Hún er einfaldlega sú, að ekki sé að marka aðrar skoðanir sjálfstæðismanna en þær, sem Morgunblaðið flytur.
Auðvitað hefur Morgunblaðið verið utangátta í umræðunni um aronskuna. Sú umræða hefur nær eingöngu farið fram í Dagblaðinu. Á síðasta ári birtust um þessa stefnu ótal greinar í blaðinu og skiptust þær nokkurn veginn jafnt milli meðmælenda og mótmælenda stefnunnar.
Almenningur í þessu landi fylgdist með þessum margbreytilegu skrifum um aronskuna. Þess vegna voru menn búnir að mynda sér skoðun, þegar þeir tóku þátt í margræddri skoðanakönnun. Þess vegna svaraði þorri prófkjörskjósenda spurningunni um aronskuna.
Í rauninni var á síðasta ári ekkert þjóðmál meira rætt en einmitt aronskan. Þetta fór framhjá hinum fámenna hópi, sem ekkert skilur né hugsar og bíður bara eftir línunni úr leiðara Morgunblaðsins. Í augum þess hóps er heimurinn ekki til, fyrr en Morgunblaðið er búið að skrifa um hann.
Og Morgunblaðið rumskaði eins og risaeðla daginn fyrir kjördag. Sértrúarflokki blaðsins var gefin línan í lengsta og leturstærsta leiðara, sem þar hefur sézt í manna minnum. Flokkseigendafélagið hélt, að menn læsu leiðara Morgunblaðsins og hefðu áhuga á þeim heilaþvotti, sem þar fer fram.
Sem betur fer kom í ljós, að þeir eru einkar fáir sem láta Morgunblaðið hugsa fyrir sig. Gárungarnir segja, að um miðjan marz verði búið að láta þá alla með tölu vitna gegn aronskunni á síðum blaðsins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið