Rafmagnsveitur ríkisins eru að byrja að greina kerfisbundið milli arðbærra verkefna annars vegar og félagslegra verkefna hins vegar. Í framhaldi af því hyggst stofnunin leggja fram tvískiptar fjárlagatillögur þegar á þessu sumri.
Hliðstæð vinnubrögð þyrfti að taka upp sem fasta reglu hjá öðrum þjónustustofnunum ríkisins. Miklu fleiri stofnanir en rafmagnsveiturnar standa andspænis þeim vanda að þurfa að kosta óarðbærar framkvæmdir, án þess að fá til þeirra sérstakt fé hjá ríkinu.
Einnig þyrfti að koma á slíkum vinnubrögðum í opinberum stofnunum, sem ekki selja þjónustu sína, heldur fá rekstrarfé sitt hjá ríkinu. Fjárveitingavaldið ætti einnig í þeim tilvikum að vita, hversu miklu fé er veitt í arðbæra þjónustu og hversu miklu í óarðbæra.
Ófært er, að ruglað sé saman þjónustu, sem stendur undir sér, og þjónustu, sem lagt er út í til að halda jafnvægi í byggð landsins eða af öðrum félagslegum ástæðum. Annars vegar er um að ræða hrein viðskipti við neytendur og hins vegar sérstakan þjóðfélagslegan kostnað, sem ekki skilar sér í peningum.
Með þessu er ekki verið að segja, að óarðbæra þjónustan sé endilega óæskilegri en hin arðbæra. Óarðbær þjónusta er í rauninni hornsteinn allra velferðarríkja nútímans. Þar er arðsemi, mæld í peningum, aðeins einn þáttur af mörgum.
Hins vegar er nauðsynlegt, að ráðamenn geri sér grein fyrir, hvað er arðbær þjónusta og hvað er félagsleg þjónusta. Hin síðarnefnda má ekki sigla undir fölsku flaggi, dulbúin sem liður í starfsemi, er á samkvæmt kröfum ráðamanna að vera arðbær sem heild.
Það er til dæmis óeðlilegt, að notkun á telexi og öðrum mikilvægum þáttum símamála sé haldið niðri með því að verðleggja hana á margföldu verði til að greiða niður óarðbæra þætti símamála. Hið sama má segja um verðjöfnunargjald rafmagns, sem hefur gert íslenzkt fossaafl að einu dýrasta rafmagni heims, þegar það er komið heim til neytandans í þéttbýli.
Hinn sameiginlegi sjóður landsmanna er einmitt til þess að borga óarðbæra þjónustu. Þar á að flytja peningana í gegn, í stað þess að vera með sjónhverfingu í verðlagningu arðbærrar þjónustu. Þá þjónustu á að verðleggja þannig, að nokkur hagnaður sé af henni einangraðri, en ekki á margföldu verði.
Það er betra fyrir kjósendur að borga mismuninn í opinberum gjöldum. Þá hafa þeir líka eins og stjórnvöld betri yfirsýn yfir, hversu mikið hin félagalega þjónusta kostar í raun og veru og hversu mikið einstaka þættir hennar kosta.
Hagfræðileg meðferð þessara upplýsinga og annarra slíkra á að geta frætt stjórnvöld og þjóð um atriði á borð við raunverulegan kostnað af tilraunum hins opinbera til að halda jafnvægi í byggð landsins og til að jafna aðstöðumun íbúa strjálbýlis og þéttbýlis.
Menn geta auðvitað deilt um, hversu miklu fé eigi að verja til slíkra hluta. Hitt er engum til góðs, að stjórnvöld og kjósendur geri sér rangar hugmyndir um hinn raunverulega kostnað. Í þessu sem öðru á að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.
Stjórnendur Rafmagnsveitna ríkisins hafa komið auga á, að þessi breyting er forsenda þess, að stofnunin komi fjármálum sínum í lag og geti starfað annars vegar sem arðbært fyrirtæki og hins vegar sem framkvæmdaaðili í félagslegum verkefnum rafmagnsmála.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið