Þrjár kempur þinga

Greinar

Hefðbundinn hægagangur er á landsmálunum vikuna, sem þing Norðurlandaráðs er haldið. Alþingi verður jafnan óstarfhæft, þegar ráðherrar og aðrir helztu máttarstólpar Alþingis beina orku sinni að norrænum veizluhöldum.

Að þessu sinni hafa ráðherrar sent varamenn af þingi til að gæm hagsmuna Íslands í norrænum veizlum og ætla sjálfir að sitja heima. Vikufriðinn ætla þeir að nota til að athuga, hvort þeir geti náð samkomulagi um efnahagsfrumvarp.

Fyrir helgina var ríkisstjórnin komin í hreinar ógöngur. Ráðherrar voru orðnir stórorðir í garð hver annars, meira að segja á opinberum vettvangi. Í þessari viku hafa þeir svo næði til að athuga, hvort standa skuli eða þurfi við stóru orðin.

Engin leið er að spá um framtíð ríkisstjórnarinnar. Lúðvík Jósepsson veit einn, hvort hann stefnir að góðum árangri í hrossakaupum um greinar efnahagsfrumvarpsins eða hvort hann stefnir að brottför Alþýðubandalagsins úr ríkisstjórn.

Gild rök má leiða að hvoru tveggja. Ef Lúðvík stefnir að samningum, þarf hann að vekja rækilega athygli á, hversu fjarlægt sjónarmiðum Alþýðubandalagsins frumvarpsuppkast Ólafs Jóhannessonar sé. Á því þurfi að gera sem mestar breytingar.

Hitt getur eins verið, að Lúðvík hafi séð fram á, að landsstjórnin verði örðug á næstu mánuðum og misserum, er verðhækkun á olíu og samdráttur á þorskveiðum leggjast ofan á annað böl, sem fyrir er. Og þá sé heppilegra að vera í stjórnarandstöðu.

Það eitt er víst í þessum efnum, að ráðherrar Alþýðubandalagsins munu hér eftir sem hingað til snúast eins og skopparakringlur kringum Lúðvík. Um framtíð ríkisstjórnarinnar ráða þeir engu, en Lúðvík öllu.

Þjóðviljinn hefur að undanförnu verið stórorður um ýmis atriði frumvarpsins, svo sem kjararáð, afnám sjálfvirkni framlaga til sjóða, frestun verðbóta, flýtingu verðlagslaga og þak á fjárfestingu og ríkisútgjöldum.

Í hrossakaupum um þessi atriði munu ráðherrar Alþýðuflokksins leggja áherzlu á, að Alþýðubandalagið sé í minnihluta í ríkisstjórn og verði að gefa meira eftir en hinir flokkarnir tveir, sem í stórum dráttum eru sammála.

Þar munu mætast stálin stinn, því að Gylfi Þ. Gíslason stjórnar ráðherrum Alþýðuflokksins sem strengbrúðum að tjaldabaki á sama hátt og Lúðvík stjórnar sínum. Gylfi er að því leyti meiri kempa, að hann þarf ekki að sitja á Alþingi.

Í framhjáhlaupi mætti benda Ólafi Jóhannessyni og Geir Hallgrímssyni á að íhuga fordæmi Lúðvíks og Gylfa, sem raunar er ekki óþekkt, því að séra Khomeini beitir því í Íran. Raunveruleg völd eru oft mest í hæfilegri fjarlægð frá formlegum valdastofnunum.

Nú reynir á garpinn Ólaf. Styrkur hans felst í, að hann veit, hverjir völdin hafa. Hann þarf ekki að ræða lengi við strengbrúður í ríkisstjórn. Hann getur snúið sér beint til Lúðvíks og Gylfa og reynt að sætta þá.

Lykillinn að framtíð ríkisstjórnarinnar er í höndum Ólafs, Lúðvíks og Gylfa. Þing Norðurlandaráðs gefur þeim góðan frið til samráða. Um úrslitin er ekki hægt að spá, því að Lúðvík veit einn, í hvaða átt hann stefnir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið