Þrífótur utanríkisviðskipta

Greinar

Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið eru eindregið okkar mestu og beztu viðskiptasvæði. Tveir þriðju útflutnings okkar fara þangað og rúmlega tveir þriðju innflutningsins koma þaðan. Þessi sambönd hafa styrkzt við aukna aðild okkar að evrópsku samstarfi.

Þegar Vestur-Evrópu sleppir, eru Bandaríkin og Japan okkar beztu viðskiptasvæði. Japan er raunar komið upp fyrir Bandaríkin. 13% útflutnings okkar fara til Japans og 12% til Bandaríkjanna. Aðeins 10% útflutnings okkar fara til annara svæða, en hér hafa verið nefnd.

Þetta þýðir, að utanríkisviðskipti okkar eru fyrst og fremst við auðþjóðir heimsins. Það er eðlilegt og gott, því að þær einar hafa ráð á að greiða það verð fyrir afurðir okkar, sem við teljum okkur þurfa að fá. Skynsamlegt er fyrir okkur að rækta ríku samböndin sem bezt.

Japan hefur reynzt okkur góður markaður. Þangað fer einkum vara, sem aðrir markaðir vilja ekki eða vilja ekki greiða nógu háu verði. Útflutningurinn til Japan dregur því ekki frá öðrum markaði, heldur er að miklu leyti hrein viðbót við annan útflutning okkar.

Japönum líkar ýmis sérhæfð vara, sem er ný í útflutningi. Einkum er það sjávarfang, svo sem loðnuhrogn og ígulker. En svo sérstakur er japanski markaðurinn, að þangað er hægt að selja án útflutningsstyrkja allt það feita hrossakjöt, sem við getum aflað í landinu.

Vestur-Evrópa er sjálfvirkur segull, sem dregur til sín utanríkisviðskipti okkar. Við þurfum að hafa fleiri stoðir undir útflutningsverzlun okkar. Bandaríkin og Japan eru augljós markaðssvæði okkar utan Evrópu. Við þurfum að halda áfram að rækta viðskipti við bæði löndin.

Í því skyni væri gagnlegt að leggja niður fáránlegt sendiráð í Kína og verja peningunum til sendiráðs í Japan. Kínverjar eru siðlausir í viðskiptum og beita aflsmun ríkisvaldsins í samskiptum við erlend fyrirtæki, en Japanir fara eftir leikreglum viðskiptalífsins.

Um Kína gildir í meira mæli en um önnur svæði þriðja heimsins, að þangað er hægt að selja þekkingu á ýmsum sviðum, þar sem við höfum sérhæfingu, svo framarlega sem því fylgir engin áhætta í fjárfestingum, svo sem sýnir dæmið um íslenzku lakkrísverksmiðjuna í Kína.

Við eigum ekki að vera að eyða opinberu fé og opinberum tíma í að magna viðskipti við ríki, sem hvorki geta né vilja borga það, sem við þurfum að fá. Allra sízt eigum við að eyða orku í þá, sem virða ekki leikreglur. Og Kína gengur lengra í því en önnur ríki þriðja heimsins.

Í löndum á borð við Japan og Bandaríkin höfum við mörgum tugum sinnum meiri markað en við munum nokkru sinni geta notað að fullu. Miklu vitlegra er að verja tíma og fé til að stækka markað okkar í slíkum löndum, sem fara að reglum og borga viðskiptaskuldir.

Þegar ferðaglaðir stjórnmálamenn okkar koma úr hópferðum sínum til Kína, fjölyrða þeir mikið um þúsund milljón manna markað í Kína. Við þurfum bara engan þúsund milljón manna markað, því að við ráðum ekki einu sinni við hundrað milljón manna markað.

Við eigum að afmarka sölumennsku okkar við svæði, þar sem við getum náð umtalsverðri markaðshlutdeild og góðu verði. Vestur-Evrópa, Bandaríkin og Japan eru samanlagt miklu meira en nógu stór og nógu rík fyrir okkur og verða svo áfram um ófyrirsjáanlegan aldur.

Þrífótur utanríkisviðskiptanna er í þremur heimsálfum. Markaðssvæðin þrjú eigum við að rækta og ekki eyða kröftunum í að reyna að gleypa heiminn.

Jónas Kristjánsson

DV