Mannfórnin í Sjálfstæðisflokknum náði nokkrum árangri, en ekki nægum. Hún skilaði einum borgarfulltrúa af þeim þremur, sem flokkinn vantaði til að halda meirihluta sínum í borgarstjórn Reykjavíkur. Sú er niðurstaða skoðanakönnunar DV, sem birt var í blaðinu í gær.
Skoðanakönnunin sýnir líka, að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eru flestir sáttir við, að flokkurinn skyldi skipta um hest í miðri á. Þannig hefur tekizt að fara hjá hættunni á, að fólk tæki óstinnt upp að þurfa að skipta um þolanda persónudýrkunar frá því í prófkjörinu.
Könnunin sýnir hins vegar fremur lítinn stuðning óákveðinna kjósenda við mannaskiptin í sæti borgarstjóra. Hún gefur ekki tilefni til að ætla, að Sjálfstæðisflokknum takist að ná úr þeim hópi nægilegri fylgisaukningu til að halda meirihlutanum í borgarstjórn.
Hafa verður í huga, að skoðanakönnunin sýnir, að flestir hafa þegar gert upp hug sinn. Óákveðnir og aðrir þeir, sem svara ekki, eru aðeins 20%. Eftir viðhorfum þeirra til spurningarinnar um réttmæti mannfórnarinnar má ætla, að þeir skiptist jafnt milli listanna.
Mannfórnin í Sjálfstæðisflokknum mistókst á svarthvítum mælikvarða sigurs og ósigurs. Reykjavíkurlistinn hefur enn svo mikið forskot í skoðanakönnuninni, að það mundi jafngilda kraftaverki, ef D-listinn ynni það alveg upp í rúmlega tveggja mánaða kosningabaráttu.
Að vísu má aldrei vanmeta getu vinstri manna til að klúðra góðri stöðu. Staða Sjálfstæðisflokksins er ekki alveg vonlaus, þótt hann geti ekki sjálfur gert mikið meira til að laga hana. Alltaf er hugsanlegt að efna megi til illinda milli aðstandenda Reykjavíkurlistans.
Við venjulegar aðstæður ætti sex borgarfulltrúa útkoma af fimmtán mögulegum að teljast hrikaleg útreið. Það er bara í ljósi fyrri kannana, sem sýndu fimm borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að líta má á nýju könnunina sem varnarsigur í annars afar vonlitlu stríði.
Skoðanakannanir eru hinn raunverulegi sigurvegari mannfórnarinnar á borgarstjórastóli. Aldrei áður hafa þær velt jafn þungu hlassi. Aldrei áður hefur verið jafn augljóst, að stjórnmálamenn og -flokkar trúa meira eða minna bókstaflega og blint á niðurstöðutölur þeirra.
Þessi trú var svo sterk, að menn höfnuðu gömlu spakmæli, sem segir, að ekki skuli skipta um hest í miðri á. Menn tóku áhættu af nýju kenningakerfi, sem byggist á, að skoðanakannanir séu sá Stóridómur, sem öllu sé fórnandi fyrir, jafnvel sjálfum borgarstjóranum.
Nýja kenningakerfið er á þessa leið: “Við gerðum allt rétt í borgarstjórn, en kjósendur eru því miður vitlausir. Þar sem skoðanakannanir eru Stóridómur, skiptum við um hest í miðri á. Við uppgötvum mjúku málin um leið. Þetta er ekki örvænting, heldur hetjuskapur okkar.”
Auðvitað er mannfórnin í senn örvænting og hetjuskapur, enda er yfirleitt skammt á milli þeirra í raunveruleikanum jafnt sem ævintýrunum. En hún hefur ekki reynzt ná nema þriðjungi af þeim árangri, sem hinar örvæntingarfullu hetjur þurftu á að halda.
Ef skoðanakannanir eru sigurvegarinn, má um leið líta á stjórnmálamenn sem hinn sigraða. Mannfórnin markar þau tímamót, að stjórnmálamenn eru hættir að nota skoðanakannanir sem verkfæri og farnir að láta þær stjórna sér í hvívetna. Þrællinn er orðinn húsbóndi.
Ef illa árar í könnunum verður hér eftir ótrauðar skipt um menn og málefni eins og föt og farða. Stjórnmálamenn munu láta meira stjórnast af veðri og vindum.
Jónas Kristjánsson
DV
