Lúðvík Jósepsson virðist ekki eins valdamikill og hingað til hefur verið talið. Að minnsta kosti hindraði hann ekki ráðherra Alþýðubandalagsins í að standa að verulegum vaxtahækkunum á þriggja mánaða fresti næstu misserin.
Alþýðubandalagið hafði raunar fallizt á vaxtahækkanirnar með því að samþykkja í vetur svonefnd Ólafslög, einkafrumvarp Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra um efnahagsmál. Í lögunum fólst m.a., að sparifé og útlán skyldu vera verðtryggð.
Samt var búizt við, að ráðherrar Alþýðubandalagsins mundu stinga við fótum að undirlagi Lúðvíks Jósepssonar, harðasta andstæðings hárra vaxta. Og sem bankamálaráðherra hafði Svavar Gestsson sæmilega aðstöðu til að tefja framkvæmdina.
Seðlabankinn var fljótur að leggja fyrir ríkisstjórnina sínar tillögur. Og þá gerðist það, að ráðherrarnir samþykktu tillögurnar, þar á meðal Alþýðubandalagsmennirnir með bankamálaráðherrann í broddi fylkingar.
Árangurinn er sá, að þróunin í átt til fullrar verð- tryggingar hefst strax á morgun, þegar vextir hækka yfirleitt um 2,5 prósentustig. Síðan eiga þeir að hækka um 2,5 prósentustig á þriggja mánaða fresti til loka næsta árs.
Ríkisstjórninni er sómi að þessari niðurstöðu. Hún mun draga nokkuð úr spillingunni, sem óhjákvæmilega blómstrar við misræmi vaxta og verðbólgu. Hún stuðlar þar með að heilbrigðara þjóðfélagi á Íslandi.
Eftir daginn í dag verða eiginlegir vextir eða grunnvextir lágir, 5-7,5% af innlánum og 5,5-8,5% af útlánum. Verðbætur verða hins vegar háar, 17-27% af innlánum og útlánum. Verðbæturnar hækka svo á þriggja mánaða fresti unz verðbólgu er náð.
Ef verðbólgan helzt óbreytt, 42%, verða samanlagðir vextir komnir upp undir 50% í lok næsta árs. En gert er ráð fyrir, að verðbólguþáttinn megi greiða eftir á og bæta honum við höfuðstól fjárskuldbindinganna.
Það var einmitt nýmæli Ólafslaga, að raunvöxtum skyldi náð með því að verðtryggja sjálfan höfuðstólinn, en hafa vexti lága. Bankar og sparisjóðir eru nú að vinna að nánari útfærslu þessarar tengingar verðbóta við höfuðstól.
Hinar samþykktu tillögur eru ekki fullkomnar. Alvarlegur er til dæmis sá galli þeirra að mismuna verulega milli víxillána og vaxtaaukalána. Það er að vísu í lagi að hafa mismun á grunnvöxtum þessara lána, en ekki á verðbótaþættinum.
Á morgun verða samanlagðir víxilvextir 25,5% og samanlagðir vextir vaxtaaukalána 35,5%. Þar munar hvorki meira né minna en 10 prósentustigum. Og þar eru áreiðanlegir skítugir, pólitískir puttar í spilinu.
Lánastofnanir munu hér eftir sem hingað til geta tekið víxla í stað vaxtaaukabréfa af pólitískum gæðingum og samið um framlengingar, svo að víxillánin verði í raun jafnlöng og vaxtaaukalánin. Þetta varpar miklum skugga á málið í heild.
Með þessu er stefnt að verulegri stéttaskiptingu. Annars vegar er almenningur, sem verður að sæta vaxtaaukalánum með fullum verðbólguvöxtum. Hins vegar eru svo bílakauparáðherrar, pólitískir gæðingar og fyrirtæki þeirra, sem borga tíu prósentustigum minna.
Nú er það krafa almennings í garð ríkisstjórnar og Seðlabanka, að þessum möguleika á misnotkun verði rutt úr vegi. Þá fyrst verður því trúað, að markmið vaxtastefnu þessara aðila sé jafn göfugt og við viljum trúa.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið