Þorskur á Bambus

Veitingar

Bambus er ný matstofa í borgarhöllinni við hlið Höfðatorgsturns, fagurlega innréttuð í grá-svörtum útrásarstíl bankagötunnar. Hátt til lofts og vítt til veggja og þjónusta notaleg. Þar er suðaustur-asísk matreiðsla, þar sem sterk krydd og sterkar sósur ráða ferð. Hentar bragðdaufu hráefni, svo sem kjúklingi. Grillaður þorskur var í sítrónugrasi, engifersósu og léttsteiktu grænmeti. Engin leið var að finna fiskbragðið góða í slíkri matreiðslu. Enda er fínleg meðferð hráefnis utan við kjarna þessarar matarhefðar. Fyrir 1850 krónur í hádeginu mun ég áfram halda mig við frábæra fiskistaði bæjarins.