Þjórsárdalur

Frá Skriðufelli í Þjórsárdal að Hólaskógi á Gnúpverjaafrétt.

Þetta er upphaf hinnar fornu og vörðuðu Sprengisandsleiðar í suðri.

Dalurinn er nokkuð sléttlendur og vikurborinn eftir endurtekin eldgos í Heklu. Innan við Skriðufell var dalurinn kominn í auðn vegna vikurfalls, en reynt hefur verið að græða han upp, til dæmis með lúpínu. Merkisstaðir í Þjórsárdal eru Stöng, Gjáin, Háifoss, Þjóðveldisbærinn og Vegghamrar. Bærinn að Stöng var grafinn upp árið 1939 og var byggt yfir hann svo nú er hægt að sjá þar hvernig eldstæði og annað innbú leit út á söguöld. Göngubrú er yfir Rauðá rétt fyrir neðan Stöng. Frá Stöng er vinsælt að ganga að Gjánni. Friðsælt er í Gjánni, þar sem Rauðá leikur við hamra og gil. Þar er hvannastóð kringum uppspretturnar og margar tegundir mosa og grasa.

Förum frá Skriðufelli, þar sem Sprengisandsvegur hefst að sunnanverðu. Fyrsta varðan er við Húsagróf, tæpan kílómetra austan við bæinn á Skriðufelli. Við förum vörðuðu slóðina austan Skriðufells upp með Sandá undir Dímoni. Skiljum þar við ána og stefnum austur undir Vegghömrum á suðurenda Reykholts. Förum sunnan við holtið og síðan til austurs norðan við Skeljafell að hestarétt við Stöng. Þaðan förum við suður yfir Fossá og upp með Rauðá á suðurbakka Gjárinnar. Síðan norðaustur um Kjóaflöt og bratt Hólaklif og áfram um Bleikkollugil að fjallaskálanum í Hólaskógi.

14,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.

Nálægir ferlar: Gjáin-Stöng, Ísahryggur, Hraunin.
Nálægar leiðir: Skúmstungur, Ásólfsstaðir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Vörðuvinafélagið