Þingnefndir rannsaki

Greinar

Frumvarp Vilmundar Gylfasonar og Árna Gunnarssonar um rannsóknir þingnefnda er eitt allra merkasta málið, sem nýbyrjað alþingi hefur fengið til meðferðar. Stefnir frumvarpið að því, að Íslendingar feti í fótspor Bandaríkjamanna, Breta og raunar fleiri þjóða, sem hafa góða reynslu af rannsóknum af hálfu þingnefnda.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.: ” … að undanförnu hefur áhugi þingsins einkum. beinzt að því að setja lög en lítið eða ekki að því að hafa eftirlit með því, hvort eða hvernig lögum er framfylgt. Það segir sig þó sjálft, að tilgangslítið er að setja lög, ef þeim er ekki framfylgt og ef framkvæmdavald og dómsvald hafa ekki séð ástæðu til að fylgja þeim eftir.”

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að framvegis verði þingnefndum skylt að fylgjast með framkvæmd laga. Í því skyni hafa þær rétt til að kalla fyrir sig menn, sem þær telja eiga hlut að máli. Það gerir einnig ráð fyrir, að auk fastra nefnda alþingis megi skipa sérstakar nefndir á þingi í þessu skyni.

Sérstök ástæða er til að leggja áherzlu á og fagna einu ákvæði frumvarpsins: “Eftirlitsstarf þingnefnda með framkvæmd laga fari fram fyrir opnum tjöldum, nema meiri hluti þingnefndar ákveði annað.” Með þessu er fylgt stefnu opnara lýðræðis, sem hefur rutt sér til rúms í Bandaríkjunum á síðustu árum og hefur gefizt vel.

En skynsamlegra væri að binda hendur þingnefnda meira á þessu sviði, því að freistingar leynimakks eru jafnan miklar. Það mætti gera með því að rekja í lögum, hvers konar aðstæður verði að vera, svo að þingnefnd sé heimilt að ákveða með einföldum meirihluta að loka fundi.

Engum dettur í hug, að kraftaverk muni gerast í einu vetfangi, þótt frumvarp þetta verði samþykkt. Utanaðkomandi mönnum finnst erfitt að ímynda sér marga íslenzka þingmenn í hlutverkum þeirra, sem beztum árangri hafa náð í bandarískum þingnefndum. Slíkur er munurinn á hæfileikum, dugnaði og þó sérstaklega aðstöðu þingmannanna.

Þar á ofan eru þingmenn hér flokkspólitískari en starfsbræður þeirra vestan hafs. Þar kjósa þingmenn gegn flokki sínum og flokksbræðrum, ef samvizkan býður þeim það. Hér láta menn hins vegar draga sig í réttan dilk fram í rauðan dauðann. Sú venja mun áreiðanlega vera rannsóknastörfum þingnefnda fjötur um fót.

Á einhverju þarf að byrja, þótt Róm sé ekki byggð á einum degi. Vona má, að rannsóknastörfum þingnefnda fari smám saman fram eftir því sem þing og þjóð átta sig betur á gildi slíkra starfa. Enda gæti þróun verið heppilegri en bylting á þessu sviði sem svo mörgum öðrum. Frumvarpið er vísir að slíkri þróun.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið