Það er dæmigert fyrir norsk viðhorf í landhelgisdeilunni, er Frydenlund utanríkisráðherra segir nú, að Norðmenn geti ekki útvegað Íslendingum hraðskreitt varðskip, þar sem þeir séu í varnarbandalagi bæði með Bretum og Íslendingum og megi ekki gera upp á milli þeirra.
Okkur hefur aldrei verið neinn umtalsverður stuðningur í Norðmönnum í landhelgisdeilum okkar. Þeir höfðu hægt um sig, meðan við vorum að berjast fyrir fjórum og tólf mílum. Þegar þeir voru búnir að láta Íslendinga eina um baráttuna, komu þeir jafnan í kjólfarið og uppskáru fyrirhafnarlitla útfærslu sinnar fiskveiðilögsögu.
Norðmenn héldu eins að sér höndum, þegar við vorum að ná okkur í 50 mílna fiskveiðilögsögu. Þeir hafa að vísu ekki enn treyst sér til að fylgja í kjölfarið, en augljóst er, að þeir muni á næsta ári fylgja í 200 mílna kjölfar Íslendinga.
Þar á ofan hafa Norðmenn sumpart hagnazt á deilum okkar við Breta. Steingrímur Hermannsson alþingismaður upplýsti á þingi í síðustu viku, að hann hefði í flugráði beitt sér fyrir því, að norskt tilboð um sölu flugskýlis var tekið fram yfir brezkt, þótt norska tilboóió væri töluvert óhagstæðara.
Norðmenn eru einna hörðustu keppinautar okkar í sölu sjávarafurða, einkum frystra fiskafurða á Bandaríkjamarkaði. Þeir eru ríkir af iðnaði og verzlun og geta leyft sér að ríkisstyrkja sinn sjávarútveg, meðan við verðum að láta okkar sjávarútveg standa undir samneyzlu okkar, landbúnaði og ýmsu öðru óhófi.
Norskir og íslenzkir embættismenn eru nú að ræða um undanþágur fyrir Norðmenn í 200 mílna fiskveiðilðgsögu Íslands. Norðmenn vilja, að hin ríkisstyrktu skip sín fái að veiða á Íslandsmiðum til að bæta enn frekar samkeppnisaðstöðu sína gagnvart Íslendingum á Bandaríkjamarkaði.
Hinir íslenzku embættismenn mega ekki ganga að slíkum viðræðum með óhóflega skandinavíska frændsemisglýju í augum. Þeir hafa hingað til talið sér kleift að leyna þjóðina því, hvað sé verið að tala um mörg norsk skip og mikinn norskan afla á Íslandsmióum.
Það er ekki verið að segja, að Norðmenn eigi hér engar undanþágur að fá, þótt þess sé krafizt af hinum íslenzku samningamönnum, að þeir láti ekki Norðmenn hafa sig að fífli.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið