Solzhenitsyn og aðrir frjálshyggjumenn Sovétríkjunum eru fleinn í holdi stjórnvalda landsins. Þeir hafa flestir fengið rækilega að kenna á því. Þeir eru fluttir nauðugir á geðveikrahæli og reynt að brjóta þá niður með sérstökum lyfjum. Þeir eru dæmdir í þrælkunarbúðir. Og upp á síðkastið er byrjað að reka suma þeirra úr landi.
Ekkert af þessu er gert við Solzhenitsyn. Hann er að vísu útskúfaður maður, sem verður að sæta húsleit og margvíslegum ruddaskap af hálfu lögreglunnar, og vinir hans eru jafnframt ofsóttir. En hann er ekki settur á hæli, dæmdur í búðir né rekinn úr landi.
Slíkar aðgerðir væru ekkert nýnæmi fyrir Solzhenitsyn. Hann hefur langa reynslu af fangabúðum og hefur rannsakað betur en nokkur annar allt kerfi lögregluofsókna í Sovétríkjunum. Þar við bætist hinn sérstæði persónuleiki hans, sem skýtur stjórnvöldum skelk í bringu.
Solzhenitsyn óttast ekki villidýr kerfisins. Hann hefur fyrir löngu gert það upp við sig, að hann muni ganga sína braut til enda, án tillits til afleiðinganna. Þjáningar fyrri ára hafa hert hann, án þess að skaða hans innra jafnvægi. Hann hefur hvorki glatað skopskyni sínu né sjálfsháði. Hann er eins og klettur, sem hafið fær ekki brotið niður.
Stjórnvöldin vita ekki, hvernig þau eiga að taka á Solzhenitsyn. Þau vita, að auknar hefndaraðgerðir mundu vekja mikla reiði á Vesturlöndum og spilla fyrir því, að Sovétstjórninni takist að fá Vesturlandamenn til að trúa friðarbrosi hennar. Og um þessar mundir er það einmitt mikilvægur liður í stefnu stjórnarinnar í alþjóðamálum að svæfa Vesturlönd á verði sínum.
Sovétstjórnin segir, að hún eigi frumkvæði að friðarfundunum í Vín og Genf. Það er rétt, en . hver er árangurinn? Tillögur hennar um fækkun gereyðingarvopna stefna að algerum yfirburðum Sovétríkjanna í kjarnorkuvopnum. Og tillögur hennar um gagnkvæman samdrátt herja Varsjár- og Atlantshafsbandalagsins stefna einnig að yfirburðum Sovétríkjanna í evrópskum vígbúnaði. Hún hafnar því alveg, að jafnvægi verði í samdrætti á báðum þessum sviðum.
Síðast en ekki sízt hafnar hún velflestum til. lögum Vesturlanda um mannréttindi, ferðafrelsi og aukið skoðanastreymi milli landa. Hún vill viðhalda járntjaldinu í þess gömlu mynd.
Þrátt fyrir hina ömurlegu afstöðu Sovétríkjanna á friðarfundunum, freistast margir Vesturlandabúar til að treysta góðvilja sovétstjórnarinnar. Það er orðin klisja, að kalda stríðið sé úrelt. En síðustu mánuðina hafa margir áttað sig á, að ekki er allt með felldu á þessu sviði. Auknar aðgerðir gegn Solzhenitsyn mundu gefa þessum efasemdum byr undir báða vængi.
Þess vegna er Solzhenitsyn enn laus, hversu lengi, sem það endist. Síðustu uppljóstranir hans í bókinni “Gulag-eyjaklasinn” eru svo hrollvekjandi, að líf hans og heilsa eru í meiri hættu en nokkru sinni fyrr.
Jónas Kristjánsson
Vísir