Það er ekki Alfreð

Greinar

Það er mikill misskilningur, er sumir eru farnir að tala um Alfreð Þorsteinsson aðstoðarritstjóra sem einangrað fyrirbæri á Tímanum og í Framsóknarflokknum. Hann er sjálfur enginn persónugervingur spillingar og eymdar flokksforustunnar. Hann gerir bara það, sem honum er sagt að gera.

Velgengni Alfreðs í starfi byggist á því, hve þægur þjónn flokksforustunnar hann hefur verið. Hvert einasta orð, sem hann skrifar, er með vitund og vilja Þórarins Þórarinssonar, ritstjóra Tímans. Og sumt sorpið er meira að segja skrifað að undirlagi sjálfs flokksformannsins, Ólafs Jóhannessonar.

Sérstaka athygli hafa vakið nafnlaus lesendabréf í Tímanum, þar sem veitzt er með óvenju ógeðslegum hætti að þeim mönnum, sem forustuliði Framsóknarflokksins er í nöp við. Slík skrif þekkjast hvergi annars staðar á byggðu bóli í nálægum heimshlutum.

Þessi bréf eru yfirleitt heimatilbúin á ritstjórn Tímans. Þar á meðal eru bréf um Kristján Pétursson tollvörð og Vilmund Gylfason menntaskólakennara. Þau bréf eru rituð samkvæmt fyrirsögn Ólafs Jóhannessonar dómsmálaráðherra.

Andi lesendabréfanna endurspeglast í hinni föstu sorptunnu Tímans, sem Alfreð Þorsteinsson er látinn leggja stafi sína við. Þar er mjög talað Í dylgjum og hálfkveðnum vísum. Þar eru ummæli manna færð úr lagi til að ná höggstað á þeim.

Það er fyrst og fremst þessi texti Tímans, sem veldur því, að margir tala af misskilningi um Alfreð Þorsteinsson sem eitthvert illt blóð Framsóknarflokksins. En hann er ekki að tala fyrir sinn munn, heldur fyrir munn forustu Framsóknarflokksins.

Sorpið í Tímanum er ekkert einkamál Alfreðs Þorsteinssonar. Það er skipulagt af Þórarni Þórarinssyni ritstjóra og æðstu valdamönnum Framsóknarflokksins með Ólaf Jóhannesson í broddi fylkingar. Það endurspeglar ekki nauðsynlega menningarástand og siðferðisstig Alfreðs Þorsteinssonar, heldur þeirra manna, sem blaðinu ráða.

Þetta hugarfar er afleiðing gífurlegrar hræðslu forustu Framsóknarflokksins við umhverfi sitt. Hvarvetna sér hún sveitir óvígra óvina sækja að flokknum. Hún slær frá sér í þeirri blindni, sem menn geta lesið af síðum Tímans.

Það kann að vera tilviljun, að nafn Framsóknarflokksins heyrist oftar nefnt en annarra flokka, þegar minnzt er á pólitíska spillingu tengda fjármálum. Kannski hefði slíkt umtal á öðrum tímum fremur lent á öðrum flokkum. En alténd er það vonlítið haldreipi, að óvinir lýðræðis og umbóta séu að ráðast á Framsóknarflokkinn.

Flestir góðir menn munu hafa skilning á því er Vilmundur Gylfason neitar að taka þátt Í kappræðu við Alfreð Þorsteinsson. En þar er Vilmundur samt að hengja bakara fyrir smið. Það er sjálf forusta Framsóknarflokksins, en ekki Alfreð, sem ber ábyrgð á sorpinu í Tímanum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið