Sennilega eru alþýðusamtökin öflugasti þrýstihópur landsins. Enda geta þau haldið því fram, að þau hafi umboð almennings til að knýja fram bætt lífskjör í landinu. Og flestir geta verið sammála um, að markmiðið með hagvexti sé að bæta lífskjörin.
Til skamms tíma hefur ekki verið unnt að kvarta um skemmdarstarfsemi af hálfu alþýðusamtakanna. Við höfum ekki búið við brezkt ástand í þeim efnum. Kröfugerð alþýðusamtakanna tekur yfirleitt mið af efnahagsástandinu hverju sinni. Hún er meiri, þegar vel árar, og minni, þegar illa árar eins og að undanförnu.
Hins vegar hefur barátta alþýðusamtakanna stundum neikvæð áhrif á lífskjörin. Verkfallagleði er of mikil hér á landi. Með verkföllum er minnkuð sú kaka, sem er tilskiptanna.
Við getum margt lært af Svíum og Svisslendingum, sem eru að fara fram úr Bandaríkjamönnum á stjörnuhimni efnahagsmálanna. Í báðum þessum löndum eru verkföll svo að segja óþekkt fyrirbæri.
Annað atriði, sem dregur úr árangrinum af starfi alþýðusamtakanna, er of takmarkaður skilningur ráðamanna þeirra á efnahagsþáttunum, sem ráða lífskjörunum, og of takmarkaður skilningur á þeim atriðum, sem sameina launþega og atvinnurekendur.
Helzt eru það verzlunarmenn, sem átta sig á samræminu milli velgengni verzlunarinnar í landinu og lífskjara verzlunarmanna. Þeir hafa til dæmis stutt kröfur kaupmanna um verðlagseftirlit í stað núgildandi verðlagshafta.
Aðrir átta sig miður á slíku samhengi. Dæmigerðir eru ráðamenn sjómanna, sem bíta sig fasta í vonlaust rifrildi um hlutaskiptin og horfa síðan upp á alls kyns millifærslur framhjá hlutaskiptum.
Ef forustumenn sjómanna væru víðsýnni, sæju þeir, að of léleg kjör sjómanna stafa af of lágu fiskverði, sem stafar af of háu gengi krónunnar. Ef þeir skildu þetta, mundu þeir hjálpa útgerðarmönnum við að fá leiðrétt þetta meginböl íslenzks efnahagslífs.
Athyglisvert er, hve takmörkuðum árangri forustumenn sjómanna hafa náð í kjaramálum, þótt samningsharka þeirra sé meiri en flestra ann arra. En samningsharka er einmitt tvíeggjuð, þegar skilning skortir á þeim efnahagsþáttum, sem lífskjörin byggjast á.
Hvers vegna eru laun of lág á Íslandi? Ekki er það vegna þrjózku atvinnurekenda, sem margir hverjir standa nú andspænis gjaldþroti. Og þess ber einnig að geta, að laun eru meirihluti þjóðarframleiðslunnar hér á landi en í nágrannalöndunum, eins og fram kemur í nýjustu skýrslu Efnahagsþróunarstofnunarinnar.
Laun eru of lág á Íslandi, af því að við búum við rotinn ríkisrekstur á efnahagskerfinu, sem leiðir til þess, að milljarðar króna fara í súginn á ári hverju.
Ríkið tekur of mikið fé í samneyzlu á kostnað einkaneyzlu. Það frystir of mikið af fjármagni þjóðarinnar til að leggja í sjálfvirkt sjóðakerfi, sem gefur fjármagn í arðlitlar forréttindagreinar, eins og margoft hefur verið bent á hér í Vísi að undanförnu.
Alþýðusamtökin mundu til langs tíma ná betri kjörum, ef þau legðu sitt þunga lóð á þá vogarskál, að fjármagnsstraumar yrðu frjálsari og eflt jafnrétti atvinnuvega. Þá mundi stækka kakan, sem er til skiptanna.
Jónas Kristjánsson
Vísir