Tekst útvíkkun óstjórnarinnar?

Greinar

Skýrsla hagrannsóknadeildar um hroðalegan viðskilnað vinstristjórnarinnar hlýtur að vera fróðlegt lesefni fyrir þá, sem nú reyna af öllum mætti að mynda nýja vinstri stjórn með þátttöku Alþýðuflokksins.

Í skýrslunni kemur m.a. fram, að ríkið, ríkisfyrirtæki, stofnlánasjóðir, gjaldeyrisvarasjóðurinn og ýmsar helztu atvinnugreinar landsmanna ramba á barmi gjaldþrots. Fjárvöntun ríkis, ríkisfyrirtækja og stofnlánasjóða nemur um fimm milljörðum króna. Taprekstur útgerðar og frystiiðnaðar nemur tæplega þremur milljörðum króna á ársgrundvelli við núverandi skilyrði. Og rúmlega átta milljarða óhagstæður viðskiptajöfnuður hefur rýrt gjaldeyrisvarasjóðinn niður í sem svarar eins mánaðar innflutningi.

Þar sem tekin hafa verið og tekin verða ný erlend lán fyrir um níu milljarða króna á árinu og erlendir fjármagnsmarkaðir eru að lokast, er ekki lengur unnt að,róa á þau mið. Fyrirsjáanleg skerðing kaupmáttar í haust og fyrri hluta vetrar kemur honum niður fyrir það, sem hann var árið 1972. Og sé tekin með í reikninginn gengislækkunin, sem áætlunin gefur til kynna, að nauðsynleg sé til að bjarga útflutningsatvinnuvegunum, fer kaupmátturinn niður í það, sem hann. var árið 1971.

Það verður grátlegt að fylgjast með, þegar vinstriflokkarnir fara að semja um gengissigið, kaupmáttarrýrnunina og samdráttinn hjá hinu opinbera. Þá munu hinir ábyrgðarminnstu í hópnum, einkum ráðamenn Alþýðubandalagsins, kalla ákaft á nýjar blekkingar til að dylja ástandið. Þeir munu án efa telja slíkt unnt hér eftir sem undanfarin þrjú ár. Þeir verða tregir til að átta sig á, að nú er komið að skuldadögunum.

Slagurinn um varnarmálin verður barnaleikur hjá þessum mikla efnahagsmálaslag. Verður samt ekki seð, hvernig Einar Ágústsson fer að bæta sjónarmiðum Alþýðuflokksins við margsaga yfirlýsingar sinar í varnarmálum. Hann þarf áreiðanlega á allri sinni sjónhverfingatækni að halda, ef hann ætlar að kasta upp á víxl sjónarmiðum Alþýðubandalagsins, Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins og láta sem þar sé alltaf sami hluturinn á ferðinni.

Leiðarljós vinstriflokkanna í þessu öngþveiti er eindreginn vilji þeirra til að vera saman í stjórn. Þessi vilji kom á samkomulagi með þeim um skipan embætta á Alþingi. Þar rann Alþýðuflokkurinn mjög ljúflega inn í vinstra kerfið. og varla er ástæða til að efa, að viljann vanti núna, þegar Ólafur Jóhannesson er að berja saman nýja vinstristjórn.

Foringjar vinstri flokkanna vita, að erfitt verður að ná samkomulagi um varnarmálin. Þeir vita líka, að lestur skýrslu hagrannsóknadeildar um efnahagsástandið sýnir alvarlegan áfellisdóm um gjaldþrot fyrri vinstristjórnar. Þeir vita líka, að í kosningasigri Sjálfstæðisflokksins fólst krafa kjósenda um, að hann hefði forustu um lausn vandans.

Spurningin óráðna er nú sú, hvort foringjum vinstriflokkanna tekst þrátt fyrir allt þetta að bíta á jaxlinn og berja saman nýja óstjórn margra ósamstæðra flokka til að breiða yfir öngþveiti, sem ekki er unnt að breiða yfir.

Jónas Kristjánsson

Vísir