Tekið til höndunum

Greinar

Stefnuyfirlýsing hinnar nýju ríkisstjórnar er í sex köflum. Fjallar sá fyrsti um tímabundnar björgunaraðgerðir í efnahagsmálum. Annar kaflinn er um varanlegar umbætur í þjóðfélaginu. Sá þriðji fjallar um ýmis sérstök verkefni ríkisins, fjórði kaflinn um landhelgina, fimmti um utanríkismál og landvarnir og loks sá sjötti um endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Fátt kemur á óvart í kaflanum um björgunaraðgerðirnar. Þar eru á ferðinni svipuð úrræði og þau, sem vinstristjórnin ætlaði að gera, ef ekki hefði af öðrum ástæðum slitnað upp úr viðræðunum um myndun hennar. Boðað er, að sumar aðgerðirnar komi strax, en aðrar eftir nokkrar vikur, þegar búið er að ræða málin við aðila vinnumarkaðsins. Þessu björgunarstarfi á að ljúka á einum mánuði.

Hins vegar eru margvísleg nýmæli í kaflanum um varanlegar umbætur í þjóðfélaginu. Þar er boðuð endurskoðun vísitölukerfisins, samræming trygginga og skattakerfisins og endurskoðun á stöðu lífeyrissjóða og lífeyrisþega. Þar er einnig lofað, að ríkisútgjöldum verði haldið niðri í ákveðnu hlutfalli af þjóðartekjunum. Ennfremur, að ekki verði lagður tekjuskattur á almennar launatekjur og að skattar fyrirtækja verði svipaðir og í nágrannalöndunum. Boðuð er staðgreiðsla skatta og innleiðing virðisaukaskatts í stað söluskatts. Ennfremur ný lög um verðmyndun. Loks er boðað, að réttarstaða landshlutasamtaka sveitarfélaga verði mótuð og að sveitarfélögin taki við verkefnum úr hendi ríkisvaldsins.

Í kaflanum um sérstök verkefni ríkisins kemur fram, að tekin verður upp virk byggðastefna með því að láta 2% fjárlaga renna í Byggðasjóð. Ennfremur eru boðaðar ýmsar aðgerðir í orkumálum, er hraði virkjun íslenkra orkugjafa, bæði til iðnvæðingar og í því skyni að gera Íslendinga óháða innfluttri orku. Þá er ráðgert að láta semja áætlanir um endurnýjun fiskiskipa og endurbætur hraðfrystihúsa, þróun iðnaðar og skipan ferðamála, opinberar framkvæmdir og byggðaþróun í landinu.

Samkvæmt fjórða kafla stjórnarsáttmálans verður fiskveiðilandhelgin færð út í 200 mílur á næsta ári. Þessari yfirlýsingu fylgja engin skilyrði, svo að um bindandi yfirlýsingu er að ræða.

Lögð er áherzla á varðveizlu þjóðernis, sjálfsákvörðunarréttar og efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar í fimmta kafla, sem fjallar um utanríkismál. Þar er boðað framhald á aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Hraðað verði aðgerðum í þá átt, að Íslendingar taki við þeim verkefnum af varnarliðinu, sem ekki eru hernaðarlegs eðlis. Varnarliðsmenn verði búsettir á vallarsvæðinu strax og aðstæður leyfi. og loks verði greint á milli starfsemi varnarliðsins og almennar flugvallarstarfsemi.

Í sjötta kafla er sagt, að stjórnarskráin verði endurskoðuð á kjörtímabilinu. Ekki er sérstaklega minnst á kosningalögin í því sambandi, en gera má ráð fyrir,að endurskoðun þeirra verði þáttur í heildarendurskoðuninni.

Það er því ljóst, þegar á allt er litið, að nýja ríkisstjórnin ætlar að taka til höndunum, ekki aðeins í björgunaraðgerðum líðandi stundar, heldur einnig í margvíslegum framfaramálum, sem tímabær eru orðin.

Jónas Kristjánsson

Vísir