Ertu í vanda?
Mörgum Íslendingum finnst nú þegar, sem þeim muni reynast erfitt að gera upp hug sinn í kjörklefanum að vori eða sumri, þegar kosið verður til alþingis. Þeim finnst þeir vera áhorfendur að sorgarleik. Þeir eru reiðir, en vita ekki, hvað gera skal.
Eiga þeir að kjósa flokkseigendafélag Sjálfstæðisflokksins, máttugasta stjórnmálaafl landsins, umboðsskrifstofu sjálfs kerfisins? Félag þetta syngur um frelsi og framtak, en ber um leið ábyrgð á ríkisþenslu. miðstýringu, sjóðakerfi og verðbólguveltu handa gæðingum. Flokkseigendafélagið rekur þjóðfélagið sér og sínum til fjárhagslegs ávinnings í krafti eignarhaldsins á stærsta stjórnmálaflokknum.
Eiga þeir að kjósa uppreisnarmenn innan Sjálfstæðisflokksins á borð við Albert Guðmundsson, sem segir margt, er þér líkar, en styður svo svindlið, þegar að Víðishúsi kemur?
Eða eiga þeir að kjósa aðra uppreisnarmenn, sem ekki rúmast innan flokksins og fara fram undir kjörorðum um frjálst val, öfluga stjórn og svo framvegis, en hafa ekki von um að ná manni á þing?
Eiga þeir að kjósa Framsóknarflokkinn, opinn í báða enda? Þetta er mesti íhaldsflokkur landsins og breiðir útblásnar hugsjónir yfir ýlduna af braski með auð og völd. Í raun er þessi flokkur annars vegar rekinn sem fyrirgreiðslustofnun og hins vegar sem hagsmunamiðstöð vinnslustöðva og sölustofnana landbúnaðarafurða.
Eiga þeir að kjósa Alþýðuflokkinn undir merkjum nýrra þingmanna á borð við Vilmund Gylfason? Sumir munu telja þann kost skástan, þótt þeir séu hræddir við hjáleigubúskapinn. Í tvö ár hefur flokkurinn gert út málstað sinn á kostnað Vísis, stuðningsblaðs flokkseigendafélags Sjálfstæðisflokksins. Og á þessu ári eiga Norðmenn að hlaupa undir bagga. Hvað vilja þessir göfuglyndu hjálparmenn?
Eiga kjósendur að velja Alþýðubandalagið, lokaðasta flokk landsins? Sá flokkur er svo stirðnaður, þrátt fyrir fána umhverfisverndar, bændarómantíkur, kvenréttinda, revíuskálda og skólamennsku, að hann þorir ekki að leyfa almennum stuðningsmönnum að velja frambjóðendur til alþingis.
Eða eiga þeir jafnvel að kjósa Frjálslynda og vinstri menn, sem ætluðu að sameina alla vinstri menn, en geta svo tveir saman ekki komið sér saman um afstöðu á þingi. Þessi flokkur hefur ekki miklu meiri möguleika á að ná manni á þing en sértrúarflokkar á hægri væng. Og kjósendur hafa litla trú á skútum, sem engan afla fá í vaðandi síld.
Auðvitað verða menn þreyttir, þegar þeir horfa yfir þennan völl íslenzkra stjórnmála. Sumir heimta betri flokka með blóm í haga, en vita undir niðri, að ný útgerð af því tagi ber ekki árangur. Svo er vandinn raunar kjósendum sjálfum að kenna. Þeir kjósa og láta þar við sitja. Að öðru leyti eru þeir áhorfendur.
Samt er enginn flokkurinn svo fúll, að heiðarlegt og ákveðið fólk geti ekki bætt hann. Þess vegna er eina ráðið, sem unnt er að gefa, einmitt þetta:
Taktu þátt!
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið