Ef taka ætti alvarlega ummæli Gers Hallgrímssonar forsætisráðherra, Eysteins Jónssonar alþingismanns, Gylfa Þ. Gíslasonar alþingismanns og fleiri gamalreyndra stjórnmálamanna, hefur mikill meirihluti íslenzkra st.jórnmálamanna um langt skeið verið haldinn “siðferðisbresti”, sem forsætisráðherra vill líta alvarlegum augum.
“Bónbjargastefna” eða ,,alfonska” er ekki ný bóla á Íslandi, þótt þetta hafi verið tízkuorð síðustu daga. “Þjóðhættulegar” og “siðlausar” skoðanir, á borð við þær að vilja blanda saman varnarmálum og fjármálum, hafa löngum ráðið ríkjum meðal ráðamanna þjóðarinnar.
Bandaríkjamenn reistu Keflavíkarflugvöll og gáfu Íslendingum til notkunar í borgaralegu flugi. Bandaríkjamenn hafa einnig kostað endurbætur vallarins og hafa gefið Íslendingum þær framkvæmdir. Íslenzkir stjórnmálamenn, þar á meðal þeir, sem nú hafa skyndilega siðvæðst, létu sér þetta vel líka.
Ekki verður séð, að varnarmálum og fjármálum hafi verið minna blandað saman í þessu máli Keflavíkurflugvallar en nú er lagt til að gert verði í sambandi við gerð varanlegra vega og flugvalla. Eysteinn og Gylfi hafa sem sagt verið haldnir “siðferóisbresti”, þegar þeir létu gefa sér Keflavíkurflugvöll.
Íslendingar fengu á sínum tíma frá Bandaríkjunum miklar peningagjafir, sem nefndust Marshallaðstoð. Á núgildandi verðlagi námu þessar gjafir fimm og hálfum milljarði króna. Mjög náið samband var milli þessara gjafa og varnarsamnings þess, sem Ísland og Bandaríkin gerðu um sama leyti.
Peningagjafir Bandaríkjanna voru að töluverðu leyti notaðar í stórframkvæmdir þess tíma, Írafossvirkjun, Láxárvirkjun og Áburðarverksmiðjuna. Fyrstu spor Íslendinga í stórvirkjunum og stóriðju voru þannig stigin á þann hátt, að blandað var saman fjármálum og varnarmálum.
Varnargildi varanlegra vega og flugvalla má styðja sterkum rökum. Mun verra er að tengja saman varnarmál annars vegar og virkjanir og stóriðju hins vegar. “Siðferðisbrestur” Eysteins Jónssonar og annarra ráðamanna á tímum Marshallaðstoðarinnar var því mun meiri en “siðferðisbrestur” þeirra, sem nú vilja efla almannavarnir með varanlegum vegum og flugvöllum.
Einnig má telja það furðulegt, að meðeigandi og fyrrverandi stjórnandi þess fyrirtækis, sem mest hefur grætt og græðir enn á framkvæmdum fyrir varnarliðið, skuli kalla það “siðferðisbrest” að blanda saman fjármálum og varnarmálum. Sjálfsgagnrýni getur komið fram með margvíslegum hætti og þetta er sjálfsagt einn þeirra.
Staðreyndin er sú, að gagnrýni flestra gamalreyndra stjórnmálamanna á Þeirri skoðun, að okkur beri að feta í fötspor Norðmanna í blöndun fjármála og varnamála, er belgingur án innihalds. Því verður ekki trúað, að þessir gömlu dollaraþiggjendur hafi siðvæðzt svo á einni viku, að allt, sem áður var hvítt, sé nú orðið svart í augum þeirra.
Enda er orðbragðið gegn hugmyndunum um nýja fjármálastefnu gagnvart varnarliðinu ekkert annað en tilraun til aó komast hjá því að ræða efnislega um málið.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið