Svínaskarð

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Hrafnhólum í Mosfellssveit um Svínaskarð að Norðlingavaði í Kjós.

Þetta er hluti leiðar frá Reykjavík upp í Kjós og Hvalfjörð. Skarðið styttir leiðina úr Mosfellssveit í Kjós og var oft fjölfarið með lestarflutninga. Göturnar eru glöggar og leiðin er greið hestum, en er ekki bílfær. Þó hafa menn þjösnast um hana á fólksbílum, fyrst upp úr 1930, en þá var bíllinn hreinlega borinn á köflum. Jeppar hafa spillt gömlum hleðslum, sem víða eru í giljum. Veðrasamt getur verið í skarðinu og hafa menn orðið þar úti, síðast skólapiltur um aldamótin 1900. Úr skarðinu er auðvelt að ganga á Móskarðshnúka og Skálafell. Móskarðshnúkar eru úr líparíti, ljósir að lit.

Förum frá Hrafnhólum norður frá bænum um Þverárdal, austan við Bæjarfell og vestan við Haukafjöll, að Móskarðshnjúkum. Undir þeim förum við til austurs að Skálafelli og síðan norðvestur upp skarðið milli Skálafells og Móskarðshnjúka. Í skarðinu rennur Skarðsá og förum við upp norðvestan hennar. Í miðju Svínaskarði erum við á mjóum hrygg í 480 metra hæð. Þar henda menn steini í grjóthólinn Dysina. Leiðin norður úr skarðinu er brattari og krókóttari, liggur á brúnum á þröngu giljum. Förum þar norðaustur og niður í Svínadal, norður um Þjóðholt og sumarhús í Flesjum að Norðlingavaði á Laxá, austan Möðruvalla í Kjós.

13,2 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Mosfellsheiði, Stardalsleið, Selkotsleið, Maríuhöfn, Seljadalur, Reiðhjalli.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH