Suðurmannasandfell

Frá Álkuskála til Arnarvatns.

Álkuskáli er kenndur við Álftaskálará á Haukagilsheiði. Dæmigerð reiðleið um opnar og víðfeðmar heiðar Húnavatnssýslna. Að miklu leyti er landið gróið á þessari leið norðan Fellaskála. Mestur hluti hennar er á jeppaslóð, sem liggur úr Víðidal upp á Víðidalstunguheiði. Síðari hluti leiðarinnar, þegar komið er suður fyrir Fellaskála, er í vesturjaðri Stórasands. Þar lá hinn forni Skagfirðingavegur úr Borgarfirði eftir að ferðir lögðust að mestu af um Kjöl. Stórisandur er lítt gróið hæðaland, í 700-800 m hæð, í Húnaþingi norðan Langjökuls. Milli Arnarvatnsheiðar og Kjalvegar norðan Seyðisár. Þarna eru jökulsorfin og víða stórgrýtt grágrýtishraun, sem eru þó víða greiðfær. Borgfirðingar riðu þessa leið til Örlygsstaðabardaga 1238.

Förum frá Álkuskála í 560 metra hæð eftir reiðgötu til vesturs og suðvesturs að slóð norðan úr Víðidal. Fylgjum þeirri slóð til suðurs, í tæplega 600 metra hæð, vestur fyrir Litla-Sandfell og Suðurmanna-Sandfell. Komum að Fellaskála austan við Kolgrímsvötn. Fylgjum jeppaslóðinni áfram til suðurs vestan við Fossabrekkur, unz við komum hjá Grettishöfða að jeppaslóð yfir Stórasand. Förum þá slóð til vesturs að Skammá, sem rennur úr Réttarvatni í Arnarvatn. Förum yfir ána og síðan suður fyrir Arnarvatn og vestur fyrir það að Hnúabaksskála norðvestan við vatnið, í 540 metra hæð.

38,4 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Álkuskáli: N65 08.824 W20 08.677.
Fellaskáli: N65 02.510 W20 17.340.
Hnúabak: N64 57.644 W20 21.907.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haukagilsheiði, Fljótsdrög, Arnarvatnsheiði, Aðalbólsheiði, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Hraungarðar, Aðalbólsháls, Víðidalstunguheiði, Stórisandur, Skagfirðingavegur, Grímstunguheiði, Öldumóða.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson