Stunurnar heyrast milli hæða

Veitingar

Fínu frúrnar í Gent kjaga gull- og silfurslegnar á hádegi úr sporvagninum við gamla kornmarkaðinn í miðbænum. Þar í bæ er fínt að fara í strætó, allir gera það. Bíllinn er geymdur í úthverfinu. Frúrnar velta inn í Pakkhúsið, sem er fundarstaður fína fólksins. Gamalt pakkhús á tveimur hæðum úr steyptu járni með steindum gluggum í þaki. Hér fá þær sér ostrur í forrétt. Sá matur, sem tíðast allra er sagður framkalla kynóra. Svo er góður fiskur í aðalrétt. Á eftir er svo belgískt konfekt, bezt í heimi. Svo gott, að stunurnar heyrast milli hæða. 6000-kall. Það er sko menningarlíf í Belgíu.