Íslenzka efnahagskerfið er samfelld brosgretta, svo sem fram kemur í nýjustu spá Þjóðhagsstofnunarinnar um skiptingu þjóðartekna á þessu ári.
Meðan launþegar og atvinnurekendar eru látnir berjast um ruður, hirðir ríkisvaldið beztu bitana til að geta þjónustað með óbreyttum hætti helztu forréttindahópa þjóðfélagsins.
Þjóðhagsstofnunin gerir ráð fyrir, að 11% minnkun þjóðartekna á þessu ári komi að fullu niður á launþegum og atvinnuvegum. Einkaneyzla heimilanna á að minnka um 11%, íbúðabyggingar um 5% og fjárfestingar atvinnuveganna um 12%.
Hins vegar á ríkið ekki að taka neinn þátt í þessu hrikalega böli. Samneyzlan, sem er fínt orð yfir ríkisreksturinn, á að haldast óbreytt. 0g opinberar framkvæmdir eiga að aukast um hvorki meira né minna en 10% á þessum síðustu og verstu tímum.
Að sjálfsögðu nær þetta ekki nokkurri átt, þegar allt er að fara á hvolf í efnahagslífinu. Ástandið er þannig, að afkoma atvinnuveganna er í hættu, þótt engar launahækkanir verði, og að afkoma heimilanna er í hættu, þótt einhverjar launahækkanir verði.
Svo virðist þó sem lofaður niðurskurður ríkisútgjalda um 3,5 milljarða sé inni í dæmi Þjóðhagsstofnunarinnar. En hvar sér þessa niðurskurðar stað, þegar heilir fimm mánuðir eru liðnir af árinu? Það er örugglega ekki enn búið að spara einn tíunda hluta þessarar upphæðar.
Ríkisbáknið virðist gína yfir meiru og meiru, hvort sem vinstri eða hægri ríkisstjórnir eru við völd. Allar eru þær fangar þrýstihópanna, sem eru óseðjandi, hvernig sem allt veltur í efnahagslífinu.
Landbúnaðurinn þarf sína milljarða, meðan launþegar og atvinnurekendur berjast af heift um ruðurnar. Byggðastefnan þarf sína milljarða, meðan verkföll leggja efnahag Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis í rúst.
Ríkisvaldið er ósjálfbjarga í klóm voldugustu þrýstihópanna og neyðist stöðugt til að magna hið hátimbraða forréttindakerfi, sem hvílir á herðum atvinnuvega og launþega.
Það er ekki von, að vel fari, þegar verulegur hluti alls fjármagns í landinu er sogaður inn í gjafasjóðakerfi forréttindagreinanna, meðan biðstofur bankanna eru fullar af atvinnurekendum og heimilisfeðrum, sem eru að fara á höfuðið.
Vísir hefur nokkrum sinnum bent á það í vor, að verðmætabrennslan í efnahagslífi okkar á ekki sinn líka í nálægum.löndum. Nú er einmitt rétti tíminn til að benda á þetta, þegar allir sjá, að meira en lítið er athugavert við efnahagskerfið.
Hið rotna fjármagnsfyrirgreiðslukerfi ríkisins á verulegan þátt í þeirri sjálfheldu, sem er í viðræðum deiluaðila vinnumarkaðarins. Launþegar og atvinnurekendur hafa einfaldlega ekki um neitt að semja nema ruður, því að ríkið er þegar búið að hirða lungann úr fjármagni landsins.
Jónas Kristjánsson
Vísir