Stöðvið stuldinn

Greinar

Sá aðili, sem hefur þann starfa að meta hús til fjár fyrir ríkið, reiknaði út, að Víðishúsið fræga væri 135 milljón króna virði. Þar á ofan leiddi hin ýtarlega úttekt í ljós, að húsið hentaði menntamálaráðuneytinu alls ekki.

Þrátt fyrir þessar upplýsingar ákváðu þrír ráðberrar, að húsið skyldi keypt á 259 milljón krónur, næstum því tvöfalt raunvirði hússins. Þeir ákváðu að kasta mismuninum, 124 milljón krónum af fé skattborgaranna. Var þó ekki vitað til, að neinn aðili keppti við ríkið um að kaupa húsið.

Þjóðin stendur nú andspænis því, hvernig hún eigi að koma í veg fyrir þennan fráleita þjófnað á fé almennings. Líklega er eina færa leiðin sú, að menn fylki sér um undirskriftasöfnunina gegn húsakaupunum, sem Haraldur Blöndal lögfræðingur hefur efnt til.

Fyrst héldu menn, að andstaða tveggja ráðherra og nokkurra þingmanna mundi stöðva málið. Svo reyndist ekki vera, því að ríkisstjórnin leitar í nýkomnu fjárlagafrumvarpi sérstakrar heimildar til að kaupa Víðishúsið.

Þingmenn verða því að hafa sérstaklega fyrir því að fella þetta ákvæði úr fjárlögunum. Forgöngumenn kaupanna vona greinilega, að sofandaháttur þingmanna sé meiri en svo, að þeir nenni að hafa fyrir slíku.

Forgöngumenn kaupanna eru ekki knúnir heimsku, þegar þeir vilja láta skattborgarana kaupa Víðishúsið á 124 milljón krónur umfram matsverð. Að baki liggja mikilvægir peningahagsmunir, sem ráðherrarnir vilja, að gangi fyrir almennum hagsmunum.

Eina skynsamlega skýringin á athæfi þeirra er sú, að stjórnmálaflokkur, stjórnmálaflokkar eða stjórnmálaöfl eigi að mata krókinn af sölunni. Einhver skuggaöfl eiga að skipta milli sín 124 milljón króna herfangi.

Forgöngumennirnir halda dauðahaldi í ákvörðun sína þrátt fyrir undrun almennings. Það sýnir, að málið er þeim óeðlilega fast í hendi. Þeir hyggjast knýja kaupin í gegn án þess að taka tillit til hagsmuna og sjónarmiða skattborgaranna.

Full ástæða er til að óttast andvaraleysi þingmanna, ekki sízt ef þeir telja flokk sinn hafa fjárhagslegan ávinning af kaupunum. Þess vegna er ekki sennilegt að málið verði stöðvað, nema almenningur láti til sín taka á þann hátt, að eftir verði tekið.

Haraldur Blöndal lögfræðingur hefur nú efnt til undirskriftasöfnunar, þar sem skorað er á alþingi og ríkisstjórn að hverfa frá fyrirhuguðum kaupum á Víðishúsinu. Ástæða er til að hvetja alla, sem penna geta valdið, til að skrifa undir þessa áskorun.

Hér er um að ræða prófstein á, hvort braskarar ríkisbáknsins fá eða fá ekki sönnun þess, að þeir geti, þegar þeim þóknast, stolið að vild úr vösum skattborgaranna. Þessi þjófnaður nemur 124 milljón krónum, auk þess sem sérfræðingar hafa dæmt húsið óhæft til fyrirhugaðra nota.

Ef elskendur Víðishúss verða ekki stöðvaðir núna, verða þeir aldrei stöðvaðir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið