Nýr orkuráðherra, Jón Sigurðsson, kannast ekki við neina stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma er forveri hans og utanríkisráðherra úti um allar trissur að reka þessa stefnu. Líklega sér nýi ráðherrann, að þessi stefna mun áfram skaða Framsóknarflokkinn. Hann ákveður því að þykjast alls ekki finna stefnuna. Hitt er svo aftur rétt, þegar svo er komið, að orkuráðherra finnur enga stóriðjustefnu, að þá er hann að lýsa yfir, að framvegis muni hann ekki reka slíka stefnu. Hann er því að boða, að undir hans stjórn muni Framsókn loksins láta af hinni óvinsælu stefnu.
