Stikk-fríríkið

Greinar

Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra sagði á alþingi í síðustu viku, að sjaldgæft væri og ógeðfellt, að samstarfsmaður í ríkisstjórn beitti sér af hörku fyrir skipulagsbreytingum á viðkvæmum atriðum gegn vilja hlutaðeigandi ráðherra og samstarfsmanns.

Réttlát reiði Vilhjálms beindist að Matthíasi Mathiesen fjármálaráðherra, sem hefur lagt hart að sér við að reyna að gera Hafnarfjörð að sérstöku fræðsluumdæmi og sprengja þar með grunnskólakerfið. Slík breyting mundi hafa verulegan og óþarfan kostnað í för með sér.

Auk þess er núverandi skipan fræðsluumdæma eftir kjördæmum eitt af því fáa, sem hefur lánazt vonum framar í grunnskólalögunum. Um það vitnar einróma samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs, þar sem lýst er sérstakri ánægju með góða þjónustu fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis, er hafi haft verulegan sparnað og þægindi í för með sér.

Eins og aðrir umsagnaraðilar mótmælti bæjarstjórn Kópavogs eindregið hinu umrædda frumvarpi um, að heimilt sé að stofna sérstök fræðsluumdæmi í sveitarfélögum, sem hafa fleiri en 10.000 íbúa. Í öllu menntakerfinu finnst hvergi ein einasta rödd, sem mælir bót óskafrumvarpi Matthíasar.

Forsaga málsins er sú, að Hafnarfjörður hafði einu sinni svonefndan fræðslustjóra eins og ýmis önnur sveitarfélög. Verksvið hans var nokkurn veginn nákvæmlega hið sama og verksvið skólafulltrúa er nú. Hið eina, sem gerzt hefur, er nafnbreyting. Þeir, sem áður hétu fræðslustjórar, heita nú skólafulltrúar, af því að orðið fræðslustjóri er nú notað um annað embætti.

Hafnarfjörður gæti eins og önnur sveitarfélög ráðið sér skólafulltrúa. Þar með væri tryggt, að sveitarfélagið hefði ekki misst neitt það vald, sem það hafði áður á sínum eigin skólamálum. Það er því óþarfi að sprengja skólakerfið fyrir Hafnarfjörð.

Árni Grétar Finnsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, hefur manna mest beitt sér fyrir málum, er stuðlað gætu að því, að Hafnarfjörður verði eins konar stikk-fríríki í þjóðfélaginu. Úrsögn Hafnarfjarðar úr Samtökum sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi er gott dæmi um þessa viðleitni.

Stikk-fríríkismenn Hafnarfjarðar vilja ekki taka þátt í sameiginlegum kostnaði af samstarfi sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi. Eðlilegt framhald slíkrar stefnu er að vilja ekki taka þátt í sameiginlegum kostnaði af fræðsluskrifstofu umdæmisins.

Árni Grétar er kjölfesta fjármálaráðherrans í Hafnarfirði og hefur sem slíkur fengið ráðherrann til að keyra frumvarpið í gegn. Matthías ráðherra hefur svo aftur á móti fengið Ólaf G. Einarsson úr Garðabæ til að flytja frumvarpið og hefur útvegað honum meðflutningsmenn úr öðrum stjórnmálaflokkum.

Það skoplega gerist svo, að frumvarpið flýgur léttilega um fyrri deild og hefur nú verið samþykkt í síðari deild. Flug frumvarpsins er ágætt dæmi um eymd alþingis á örlagaskeiði í efnahagsmálunum. Ennfremur er það ágætt dæmi um, hvaða mark sjálfstæðismennirnir Árni Grétar, Matthías og Ólafur og þingmenn Sjálfstæðisflokksins yfirleitt taka á bulli ungra flokksbræðra um “báknið burt”.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið