Stal hann hamborgara og pylsu?

Punktar

UMRÆÐA UM ÁKÆRUNA á hendur Baugi og aðstandendum hans fór af stað á föstudaginn með breiðsíðu í brezka dagblaðinu Guardian.

ÞAR ER ÞVÍ SLEGIÐ UPP, að eitt af fjörutíu ákæruatriðum gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sé, að hann hafi stolið einni pylsu og einum stórum hamborgara af Baugi. Guardian er beinlínis að gera grín að íslenzka ákæruvaldinu.

GUARDIAN NOTAR KREDITNÓTUVIÐSKIPTI í Færeyjum sem dæmi um, að ákærurnar séu þungt og hvasst orðaðar, en sé málið skoðað í heild sinni, komi í ljós, að eðlilegar skýringar séu á því.

GUARDIAN SEGIR að hvað eftir annað sé Jóni Ásgeiri lýst sem hinum versta glæpon í ákærunni, og hvað eftir annað komi skýringar í ljós, þegar málið sé skoðað ofan í kjölinn.

GUARDIAN HEFUR GREINILEGA bæði aðgang að ákærunni og skýringum lögmanna Baugs. Með þessum leka hefur óbeint verið tryggt, að umræðan um málið í Bretlandi verður á tiltölulega jákvæðum nótum frá sjónarhóli Baugs og Jóns Ásgeirs.

ÞAÐ SKIPTIR MESTU fyrir frekari umsvif þeirra í Bretlandi, miklu meira máli en áhrifin á Íslandi, þar sem umsvifin eru í fastari skorðum. Skoðanir á Íslandi á þessum málum eru líka fastar mótaðar en skoðanir í Bretlandi.

HÉR Á LANDI MUN HVER ÉTA ÚR SÍNUM POKA, þegar ákæran og skýringarnar birtast í næstu viku. Þeir, sem eru andvígir Baugi og Jóni Ásgeiri munu einblína á hvasst orðaval í ákærunni, og hinir, sem eru hlynntir þeim, munu einblína á skýringar lögmanna.

GUARDIAN SEGIR RAUNAR, að óvíst sé, að birting þessara skjala í næstu viku muni varpa neinu ljósi á stöðuna. Það þýðir, að menn verða áfram að velja, hvort þeir líta á Baugsmenn sem skúrka á svörtum hestum eða riddara á hvítum hestum.

TIL AÐ FYLGJAST MEÐ SKRIFUM í Guardian um þetta mál, er auðveldast að fara á heimasíðuna www.guardian.co.uk og slá inn leitarorðið BAUGUR.

DV