Nokkur ólykt er strax í upphafi viðtals, sem Morgunblaðið birti á sunnudaginn við Jónas Haralz bankastjóra um vanda bankakerfisins. Þar segir hann: “Vandamálin eru ekki þau, sem mest er um talað. Þau eru af allt öðrum toga spunnin, en á þessu er því miður lítill skilningur, nema innan bankanna sjálfra.”
Engum þarf að koma á óvart, þótt sumir bankamenn telji bankamenn eina geta fjallað um bankamál. Hershöfðingjum hættir til að líta þannig á sig og hermálin. Hið sama er að segja um hagfræðinga og efnahagsmál. Og svo framvegis í það óendanlega. Ef menn tækju mark á sjálfsáliti sérfræðinga af ýmsu tagi, væri lítið rúm orðið eftir fyrir lýðræðið í landinu.
Og bankastjórinn er ekki fyrr búinn að gefa sér og starfsfélögum sínum þá einkunn að geta einir rætt bankamál af viti en hann lýsir þeirri skoðun sinni, að bankarnir á Íslandi starfi ekki undir óeðlilegum pólitískum áhrifum. Síðar í viðtalinu segir hann, að bankaleyndin sé nauðsynleg og loks, að verðtrygging fjárskuldbindinga sé nánast óframkvæmanleg.
Bankastjórinn telur vandann hins vegar í aðalatriðum vera þann, að bankarnir séu of margir. Færir hann að því ýmis rök, sem geta verið góð og gild, en sannfæra menn þó ekki um, að flokkspólitíkin, bankaleyndin og öfugu vextirnir séu ekki enn alvarlegra vandamál.
Jónas Haralz gerir miklar kröfur til trausts af hálfu lesenda, þegar hann segir: “Það er skoðun mín, að slík þagnarskylda (bankanna) sé einn af hornsteinum eðlilegs og heilbrigðs viðskiptalífs og frjáls samfélags yfirleitt. Hún er ekki síður mikilvæg en þagnarskylda lækna.”
Enginn frekari rökstuðningur fylgir þessari kerfislegu yfirlýsingu. Engin tilraun er gerð tll að leiða lesendur inn í þá röksemdafærslu, sem kann að liggja að baki þagnarskyldu bankanna. Engin tilraun er gerð til aó ræða málið í ljósi þeirrar ádeilu, sem undanfarið hefur gætt á þessu sviði.
Hið sama er að segja um þessa yfirlýsingu bankastjórans: “Samkvæmt minni reynslu er ekki um það að ræða, að bankarnir starfi undir óeðlilegum pólitískum áhrifum eða að stjórnmálamenn reyni að misnota bankana.”
Enga tilraun gerir hann til að rökstyðja þetta nánar, né til þess að ræða sérstaklega þá ádeilu, sem bankarnir hafa sætt á þessu sviði að undanförnu. Menn verða bara einfaldlega að trúa bankastjóranum í blindni eða trúa ekki.
Bankastjórinn bendir á, að bankarnir séu undir eftirliti. En ekki er listi hans traustvekjandi. Bankaráð og endurskoðendur banka eru kosnir pólitískri kosningu. Endurskoðunardeildirnar eru reknar af bönkunum sjálfum. Og engum dettur í hug, að bankaeftirlit Seðlabankans fari að skipta sér af pólitískum lánveitingum.
Almenningur veit, aó bankarnir eru skömmtunarskrifstofur og hann hefur rökstuddan grun um, að undir skikkju bankaleyndar ríki víðtæk pólitísk spilling. Í viðtalinu hefur Jónas Haralz ekki gert neina alvarlega tilraun til að rökræða við hina vantrúuðu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið