Sömu óvinir

Greinar

Vegna sameiginlegs áhugamáls er vel við hæfi, að landsfaðir vor fari í opinbera heimsókn til landsföður Úkraínu. Hvorki Davíð Oddson né Leoníd Kuchma geta dulið gremju sína í garð fjölmiðla, sem sitja ekki og standa eins og landsfaðirinn skipar fyrir. Kuchma hefur frá mörgu að segja á því sviði.

Það er líka gott, að einhver útlendingur gleðji Kuchma um þessar mundir, því að fáir verða til þess. Um helgina kvartaði Evrópusambandið yfir stórfelldum kosningasvikum á vegum landsföðurins og lýsti áhyggjum út af tilraunum hans til að breyta stjórnarskránni í átt til aukins einræðis.

Nokkrum dögum áður hafði Evrópuráðið lýst yfir, að Úkraína yrði rekin úr ráðinu, ef Kuchma bætti ekki ráð sitt. Um svipað leyti hætti Alþjóðlegi eyðni-, berkla- og malaríusjóðurinn að styrkja Úkraínu eina af 121 ríki vegna þess að styrktarféð hafði tilhneigingu til að gufa upp.

Í desember kvartaði Alþjóðlega fjölmiðlastofnunin yfir morðinu á Volodymyr Karachevtsev, ritstjóra dagblaðsins Kuryer. Undanfarin ár hefur Kuchma látið drepa því sem næst einn blaðamann á ári til að vara hina við. Átján blaðamenn hafa verið myrtir í Úkraínu á valdatíma gestgjafa Davíðs.

Kuchma er afar einmana. Meira að segja Atlantshafsbandalagið vill ekki fá hann á fundi, þótt Úkraína hafi fengið aðild. Þótt finna megi Evrópufræðinga, sem telja hugsanlegt, að Rússland verði um síðir aðili að Evrópusambandinu, hefur enginn þeirra látið sér detta í hug síðari aðild Úkraínu.

Því er gott, að landsfaðir Íslands komi til að hugga hann. Davíð getur sagt honum frá vondum peningaköllum, sem kaupi upp fjölmiðla til að níða niður skóinn af Hannesi Hafstein nútímans. Það er akkúrat sama vandamálið og Kuchma hefur við að stríða. Þeir geta því grátið lengi hvor á öxl annars.

Þeir munu ekki tala um Volodymyr Karachevtsev, né heldur um Ihor Jenin, Mykhailo Kolomiets eða Georgi Gongadze eða önnur fyrri fórnardýr Leoníd Kuchma. Hins vegar verður mikið skálað og fagrar ræður fluttar um sameiginlegt verðmætamat tveggja undirmálsríkja á jaðri evrópskrar siðmenningar.

Líklega er Kuchma eins og Davíð traustur bandamaður George W. Bush Bandaríkjaforseta í félagi hinna stríðsfúsu, sem studdu innrás í Írak á forsendum gereyðingarvopna, sem ekki voru til. Mikið er um duglega landsfeður smáríkja í þeim hópi, enda vonuðu margir, að mikið væri upp úr því að hafa.

Samkvæmt alþjóðlegri stigagjöf er í 121 ríki heimsins minni spilling en í Úkraínu. Meiri háttar yfirlýsing felst í að fara í opinbera heimsókn einmitt til þessa rumpuríkis.

Jónas Kristjánsson

DV