Ef lýðræði á að vera virkt, þarf almenningur að eiga skýlausa kröfu til að fá að vera viðstaddur sérhvern fund opinberra stjórna, ráða og nefnda og vera vitni í stóru og smáu að hverju þrepi ráðagerða, stefnumörkunar og ákvarðana hins opinbera. Lýðræði á að framkvæma fyrir opnum tjöldum.
Borgarar landsins hafa sem þjóð ekki framselt fullveldi sitt í hendur þjónustustofnana sinna. Þjóðin veitir valdi til stjórnmálamanna sinna og embættismanna, en getur ekki veitt þeim vald til að ákveða, hvað þjóðinni sé hollt að vita og hvað henni sé ekki hollt að vita. Borgararnir eiga að gera kröfu til takmarkalausrar upplýsingaskyldu stjórnvalda, svo að þeir haldi tökum á stjórntækjum þeim, sem þeir hafa efnt til.
Hugsunin í framangreindum málsgreinum er kjarninn í nýjum lögum og lagafrumvörpum um upplýsingaskyldu stjórnvalda, sem nú eru að líta dagsins ljós í sumum ríkjum Bandaríkjanna. Fyrirmyndin virðist vera frá Floridaríki, þar sem þingmenn mega ekki einu sinni tala saman í síma án þess að talið sé um að ræða opinberan fund og lið í opinberri ákvarðanatöku, sem segja beri borgurum landsins efnislega frá.
Í lagafrumvörpum um þetta efni eru ákvæði til að hindra stjórnmálamenn í að halda leynifundi til undirbúnings opinberum fundum. Til dæmis væri hér skylt að opna fundi þingflokka, svo og klíkufundi einstakra hópa innan þingflokkanna.
Einnig eru í þessum frumvörpum ákvæði til að hindra lögfræðimenntaða menn, sem starfa fyrir hið opinbera, í að líta á samband sitt við hið opinbera sem samband lögmanns við skjólstæðing sinn og þar af leiðandi sem leyndarmál. Slík leynd má aðeins ríkja í sambandi við raunverulegan málflutning, en ekki hugsanlegan málflutning.
Að sjálfsögðu fá íslenzkir stjórnmálamenn og embættismenn fyrir hjartað, þegar þeir lesa þetta. Þeim finnst óbærilegt að hugsa til þess, að almennir borgarar geti fylgzt með þeim í stóru og smáu. Samt verður ekki betur séð en að hin takmarkalausa upplýsingaskylda sé framkvæmanleg í Florida og víðar vestra.
Bandaríkjamenn hafa tekið forustu á þessu sviði í kjölfar Watergate-málsins. Meðal lagasmiða breiðist þar út sú skoðun, að með opnun stjórnkerfisins megi reyna að hindra slík mál í framtíðinni. Með þessu eru þeir komnir fram úr Norðurlöndunum í upplýsingaskyldu stjórnvalda.
Á Norðurlöndunum eru til afar formföst lög, sem fjalla aðeins um skjöl og bréfaskriftir hins opinbera. en ekki um þær ráðagerðir, stefnumörkun og ákvarðanir, sem eru á munnlegu stigi eða einhverju öðru stigi en vélrituðu. Þar hefur almenningur lögverndaðan aðgang að skjölum og bréfum og þótti gott, unz nýjasta þróun í Bandaríkjunum gerði þetta úrelt.
Það er til marks um forneskju íslenzkra stjórnmálamanna og embættismanna á þessu sviði, að ekki aðeins skortir okkur lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda, heldur hafa þeir í nokkur ár reynt að koma á lögum um víðtækar takmarkanir á almennum aðgangi að opinberum skjölum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið